Hornaskæna (Mnium hornum)

Útbreiðsla

Fremur sjaldséður, aðallega á Vestfjörðum og Vesturlandi, einna síst á miðhálendinu og Norðurlandi Eystra (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Búsvæði

Vex á jarðvegi, oftast á þúfum í mýrum en einnig í lækjarbökkum, á skurðbökkum, í hraungjótum, milli steina í urðum, undir klettaveggjum og á jarðvegsþöktum klettum (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Lýsing

Uppréttar eða dálítið bognar, oftast ógreindar plöntur. Gróhirslur aflangar (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Gróliður

Uppréttar eða dálítið bognar, oftast ógreindar plöntur, 1,5-7 sm, dökkgrænar, gulgrænar eða gulbrúnar ofan til en brúnleitar eða svartleitar neðan til. Gamlar plöntur oft rauðbrúnar. Rætlingar brúnir, vörtóttir, mynda oft þétta rætlingaló á neðri hluta stönguls. Plöntur vaxa oft í þéttum toppum. Stöngull rauður eða rauðbrúnn en ungir stönglar þó grænir eða gulgrænir. Efri blöð 3-6 mm, lensulaga, mjó- eða breiðlensulaga, ydd. Jaðar rauður eða rauðbrúnn. Blöð tennt niður fyrir blaðmiðju, oftast næstum niður að blaðgrunni. Tennur paraðar, hvassar og stórar. Rif sterklegt, rauðbrúnt, endar oftast nokkuð fyrir neðan blaðenda. Rif er tennt á baki fremst og er oft með hvössum, stórum tönnum (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Kynliður

Plöntur einkynja, sjaldan með gróhirslum. Stilkur 1,5-3 sm, rauðgulur eða rauður. Gróhirsla aflöng og sívöl, slétt, stundum drúpandi, stendur stundum þvert út frá stilk. Ungar gróhirslur grængular en verða brúnar með aldrinum. Lok keilulaga, með stuttri totu. Ytri kranstennur gular. Á innra borði eru áberandi þverbjálkar á tönninni (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Frumur

Blöð jöðruð af löngum og mjóum frumum. Frumur í framhluta blaðs óreglulega sexhyrndar, með frekar þunnum, jafnþykkum veggjum. Frumur í blaðgrunni ferhyrndar (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Útbreiðsla - Hornaskæna (Mnium hornum)
Útbreiðsla: Hornaskæna (Mnium hornum)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |