Nálmosi (Leptobryum pyriforme)

Útbreiðsla

Vex vítt og breitt um landið en hefur þó ekki fundist á Suðausturlandi (Bergþór Jóhannsson 1995b).

Vistgerðir

Vex á rökum, sendnum jarðvegi, í sjávarbökkum, á áreyrum, í árbökkum og skurðbökkum, í rökum klettum og í hraungjótum, á þúfum í mýrum, í leirflögum við heitar laugar, við vegi, í gróðurhúsum og blómapottum (Bergþór Jóhannsson 1995b).

Lýsing

Plöntur 0,5-2 sm, ógreindar, gulgrænar eða ljósgrænar, uppréttar, glansandi (Bergþór Jóhannsson 1995b).

Gróliður

Plöntur 0,5-2 sm, ógreindar, gulgrænar eða ljósgrænar, uppréttar, glansandi. Stöngull grænn eða gulleitur ofan til, oft svartleitur neðan til. Blöð á neðri hluta stönguls dreifð og smá en þau verða snögglega mun lengri og þéttstæðari efst á stöngli. Neðri blöð lensulaga, langydd, oftast 0,5-1 mm. Efri blöð mjókka snögglega frá aflöngum grunni fram í allaga framhluta, 3-5 mm, stundum örlítið tennt fremst. Blaðrönd flöt. Rif mjög breitt, fyllir út í þriðjung til helming blaðs í blaðgrunni og næstum allan framhlutann, nær fram undir eða fram í blaðenda og nær oft fram úr blöðku efstu blöðunum. Blöð ójöðruð. Rætlingar rauðir, rauðbrúnir eða brúnir, stundum rauðfjólubláir, vörtóttir. Á rætlingunum eru oft aflangar æxlikúlur (Bergþór Jóhannsson 1995b).

Kynliður

Plöntur oftast tvíkynja, oft með gróhirslum. Egghirslur og frjóhirslur í sama knappi. Stilkur fíngerður, 1-4 sm, rauðgulur eða gulbrúnn, oft nokkuð bugðóttur. Gróhirsla perulaga, slétt, mjög glansandi, með löngum mjóum hálsi. Gróhirsla álút eða drúpandi. Hetta lítil, skástæð, slétt. Ytri tennur gulleitar, innri krans litlaus eða dálítið gulleitur. Innri tennur með götum langs eftir miðju. Milliþræðir langir (Bergþór Jóhannsson 1995b).

Frumur

Frumur striklaga framan til í blaði en breiðari og ferhyrndar neðan til (Bergþór Jóhannsson 1995b).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex á rökum, sendnum jarðvegi, í sjávarbökkum, á áreyrum, í árbökkum og skurðbökkum, í rökum klettum og í hraungjótum, á þúfum í mýrum, í leirflögum við heitar laugar, við vegi, í gróðurhúsum og blómapottum (Bergþór Jóhannsson 1995b).

Biota

Tegund (Species)
Nálmosi (Leptobryum pyriforme)