Bakkafaldur (Rhizomnium punctatum)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum, er þó lítið inni á miðhálendinu og Norðausturlandi (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Búsvæði

Vex í lækjarbökkum, fossgljúfrum, árgiljum, í og undir rökum klettum, í hellisskútum, hraungjótum og í mýrum (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Lýsing

Plöntur 1-10 sm, uppréttar, blöð geta verið nær kringlótt, neðst á stönglum og í blaðöxlum er brún rætlingaló (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Gróliður

Plöntur 1-10 sm, uppréttar, ljósgrænar, dökkgrænar eða rauðbrúnar. Stöngull rauður eða rauðbrúnn. Brún rætlingaló neðst á stöngli og í blaðöxlum. Milli blaða er stöngull rætlingalaus. Blöð frekar dreifð á neðri hlujta stönguls en þéttstæð efst. Efri blöð 3-7 mm, egglaga, öfugegglaga, aflöng eða næstum kringlótt. Kvenhlífarblöð geta orðið 9 mm löng. Blaðgrunnur mjór. Örmjó ræma blaðrandar niðurhleypt. Blaðendi bogadreginn en oftast með stuttum, sljóum oddi. Oddur er á blöðunum hvort sem rif nær fram í blaðenda eða ekki. Blöð geta verið vikótt í endann en eru þrátt fyrir það með stuttum oddi. Blöð heilrend. Jaðar oft rauð- eða brúnleitur. Rif nær næstum fram í blaðodd eða fram í hann, það rennur þó sjaldan saman við jaðarinn, er stundum klofið í endann (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Kynliður

Plöntur einkynja, sjaldan með gróhirslum. Stilkur uppréttur, rauðgulur, 0,6-2,3 sm. Alloft koma tveir stilkar frá sama kvenknappi. Gróhirsla aflöng og sívöl, slétt, gulleit eða brúnleit, stendur oftast nokkurn veginn þvert út frá stilk. Lok keilulaga, með breiðri trjónu sem er ýmist bein eða bogin og þá ýmist upp á við eða niður á við. Ytri tennur gulleitar, fínvörtóttar. Innri krans gulleitur eða gulbrúnn, fínvörtóttur. Innri tennur götóttar langs eftir miðju. Gró grænleit (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Frumur

Blöð eru jöðruð af löngum, mjóum frumum frá blaðgrunni fram í blaðenda. Jaðar er oftast þriggja til fjögurra frumuraða breiður og eins á þykkt en fremst í blaði er hann þó þynnri (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Útbreiðsla - Bakkafaldur (Rhizomnium punctatum)
Útbreiðsla: Bakkafaldur (Rhizomnium punctatum)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |