Ryðsokki (Bryoerythrophyllum recurvirostrum)

Útbreiðsla

Finnst víða um land (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Vistgerðir

Vex einkum í klettum og á sendnum jarðvegi, einnig í hraunum, móum og börðum og á torfveggjum (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Lýsing

Plöntur lágvaxnar, grænar ofan til en rauðbrúnar neðan til, litaskil oft áberandi. Rætlingar gulbrúnir (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Gróliður

Plöntur 0,5-3 sm, grænar ofan til en rauðbrúnar neðan til. Litaskil oft áberandi. Rætlingar gulbrúnir. Rök blöð með nokkuð útstæðum framhluta. Þurr blöð hringuð og snúin. Efri blöðin oftast 2-3 mm. Blaðgrunnur aflangur, litlaus, gulleitur eða rauðbrúnn, liggur upp með stöngli. Framhluti lensulaga, yddur. Blaðið endar oftast í ljósum broddi sem er myndaður af einum til þremur vörtulausum frumum. Auk þess er blaðendi stundum með fáum, óreglulegum tönnum. Blaðrönd örðótt og vörtótt, útundin næstum frá blaðgrunni fram undir blaðenda. Rif rauðbrúnt, grænt í ungum blöðum, nær fram undir eða fram í blaðenda, vörtótt á baki (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Kynliður

Plöntur tvíkynja, oft með gróhirslum. Stilkur uppréttur, rauður, 3-16 mm. Ungir stilkar oft gulleitir. Þurr stilkur undinn réttsælis þegar horft er á hann ofan frá. Gróhirsla upprétt, aflöng, sívöl, oftast bein en stundum örlítið bogin, brún eða rauðbrún, slétt. Gamlar gróhirslur oft gulbrúnar og stundum ógreinilega rákóttar. Ungar gróhirslur grænar. Lok stundum með stuttri, beinni eða dálítið skástæðri trjónu en stundum er trjónan löng. Opkrans með lágri grunnhimnu, kranstennur 16, lensulaga, götóttar eftir miðlínu eða klofnar, gular eða ljósbrúnar (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Frumur

Yfirborðsfrumur aflangar í öllu blaðinu. Frumur í framhluta blaðs ferningslaga eða sexhyrndar, þéttvörtóttar. Vörtur margar á frumu, flestar greinilega hóflaga (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex einkum í klettum og á sendnum jarðvegi, einnig í hraunum, móum og börðum og á torfveggjum (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Biota

Tegund (Species)
Ryðsokki (Bryoerythrophyllum recurvirostrum)