Lækjakragi (Schistidium rivulare)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Búsvæði

Vex á votum steinum og klettum, einkum í og við ár og læki, oft á kafi. Getur einnig vaxið á rökum sandi og myndar stundum mosakúlur sem velta á yfirborði jökla í nánd við jökulurðir (Bergþór Jóhannsson 1993).

Lýsing

Plöntur 1-10 sm, oftast mjög greinóttar, blöð ydd en án hárodds. Kvenhlífarblöð ná upp fyrir gróhirsluna sem er upprétt, á mjög stuttum stilk (Bergþór Jóhannsson 1993).

Gróliður

Plöntur 1-10 sm, oftast mjög greinóttar, dökkgrænar, brúngrænar, brúnar eða svartar efst, oftast brúnar eða svartar neðan til. Rætlingar brúnir, sléttir. Stöngull oft að mestu blaðlaus neðst eða blaðkan er fallin burt úr blöðunum en rifið stendur eftir. Þurr blöð aðlæg, rök blöð dálítið útstæð, stundum einhliðasveigð. Blöð 1,5-3 mm, kjöluð, egglaga eða egglensulaga, ydd eða snubbótt, án hárodds. Blaðrönd tvö frumulög á þykkt í framhluta blaðs. Blaðka að mestu eitt frumulag, getur verið tvö frumulög fremst og á blettum neðar. Blöð oft lítillega tennt fremst (Bergþór Jóhannsson 1993).

Kynliður

Plöntur tvíkynja, oftast með gróhirslum. Kvenhlífarblöð stærri en stöngulblöðin, ná vel upp fyrir gróhirsluna. Stilkur beinn, 0,2-0,6 mm. Gróhirsla upprétt, regluleg, slétt, hálfkúlulaga eða egglaga, brún, stundum rauðbrún. Þurrar og tómar gróhirslur með víðu opi. Lok kúpt, með langri eða stuttri, oftast skástæðri trjónu. Hún er afar sjaldan bein eða næstum bein. Miðsúla fellur burt úr gróhirslunni með lokinu. Hetta lítil, brúnleit ofan til, gul neðan til, oftast djúpt klofin að neðan á einum stað og skástæð. Stundum er hún með nokkrum grynnri skerðingum til viðbótar og er hún þá einnig skástæð. Kranstennur rauðar, fínvörtóttar, götóttar. Rakar tennur sveigðar inn yfir gróhirsluop en þurrar tennur útstæðar, útsveigðar eða liggja niður með gróhirsluvegg að utan (Bergþór Jóhannsson 1993).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs óreglulega ferningslaga eða hringlaga sexhyrndar, með þunnum eða nokkuð þykkum, sléttum eða lítillega hnúðóttum veggjum. Frumur í blaðgrunni ferhyrndar (Bergþór Jóhannsson 1993).

Útbreiðsla - Lækjakragi (Schistidium rivulare)
Útbreiðsla: Lækjakragi (Schistidium rivulare)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |