Syllureim (Myurella julacea)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Vistgerðir

Vex á jarðvegsþöktum klettum, í klettaskorum, utan í lóðréttum klettaveggjum, á klettasyllum, í hraunbollum, á árbökkum og stundum á þúfum í mýrum (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Lýsing

Plöntur oftast 1-2 sm, mynda þétta púða, blöð skarast, eru aðlæg og mjög þéttstæð (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Gróliður

Plöntur ljós-, gul- eða blágrænar. Stönglar og greinar oftast 1-2 sm, stundum 3 sm. Stöngull oft uppréttur eða uppsveigður og plönturnar í þéttum púðum. Stöngull óreglulega greinóttur með sívölum, snubbóttum greinum. Blöð skarast, eru aðlæg og mjög þéttstæð. Greinar líta út eins og sívalir snærisspottar. Blöð mjög kúpt, breiðegglaga eða næstum kringlótt, 0,3-0,6 mm. Blaðrönd tennt. Tennur myndaðar af útstæðum frumuendum. Blöð eru stundum næstum heilrend fremst. Tenning óregluleg. Við blaðgrunn eru tennur oft verulega útstæðar eða baksveigðar og mega blöðin þá teljast göddótt. Blöð oftast snubbótt en eru stundum með örsmáum oddi sem virðist vera tyllt framan á blaðendann eins og hann eigi þar varla heima. Rif vantar eða er mjög dauft, stutt og oftast klofið (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Kynliður

Hefur ekki fundist með gróhirslum hérlendis (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Frumur

Alloft er ysta frumuröð við blaðrönd litlaus og frumur þar með þunnum veggjum. Frumur í fremri hluta blaðs eru oftast tígullaga eða tígullaga sexhyrndar, með frekar þykkum veggjum. Frumur sléttar eða vörtóttar (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Greining

Blöð oftast snubbótt en eru stundum með örsmáum oddi sem virðist vera tyllt framan á blaðendann eins og hann eigi þar varla heima. Slíkur oddur er mjög ólíkur oddinum á blöðum giljareima (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex á jarðvegsþöktum klettum, í klettaskorum, utan í lóðréttum klettaveggjum, á klettasyllum, í hraunbollum, á árbökkum og stundum á þúfum í mýrum (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Biota

Tegund (Species)
Syllureim (Myurella julacea)