Hæruskrúfur (Syntrichia ruralis)

Mynd af Hæruskrúfur (Syntrichia ruralis)
Mynd: Hörður Kristinsson
Hæruskrúfur (Syntrichia ruralis)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Búsvæði

Vex mest á skuggsælum, jarðvegsþöktum klettum og steinum, einnig í hraunum, urðum, skriðum, á melum og sandi, í fuglaþúfum og á torfi og steinsteypu (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Lýsing

Plöntur nokkuð stórvaxnar (1-9 sm), vaxa stundum í allstórum breiðum. Litlaus hároddur á blöðunum (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Gróliður

Plöntur nokkuð stórvaxnar, 1-9 sm, vaxa stundum í allstórum breiðum. Rakar plöntur grágrænar eða grænar efst en rauðbrúnar neðan til. Þurrar plöntur grænbrúnar, gulgrænar, rauðbrúnar eða svartleitar. Plöntur oftast greinóttar. Stöngull ekki með miðstreng. Rætlingar gulbrúnir eða ljósbrúnir, sléttir. Oft er rætlingaló á neðri hluta stönguls. Á rökum blöðum liggur blaðgrunnur slíðurlaga upp með stöngli en framhlutinn er útstæður eða dálítið baksveigður. Þurr blöð aðlæg, oft samanbrotin um rifið og snúin, jafnvel snúin um stöngulinn. Rif þykkt, brúnt, nær langt fram úr blöðku og myndar litlausan hárodd á blöðin. Hároddur mislangur, stundum jafn langur blöðku á efri blöðunum en er oftast styttri á neðri blöðunum. Hároddur hvítleitur, oft rauðleitur eða gulleitur neðst, göddóttur (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Kynliður

Plöntur einkynja, fremur sjaldan með gróhirslum. Stilkur 0,8-1,6 sm, uppréttur. Ungir stilkar gulir en verða með aldrinum rauðgulir eða rauðir. Þurrir stilkar undnir til hægri ofan til þegar horft er á þá frá hlið. Gróhirsla upprétt, aflöng, sívöl, bein eða lítillega bogin, brún. Munnhringur úr stórum frumum. Lok keilulaga, með breiðri, beinni eða boginni trjónu. Hetta gul eða gulbrún. Tennur 32, rauðgular, gormlaga undnar, þéttvörtóttar, með háum vörtum (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs sexhyrndar eða hringlaga ferhyrndar, grænleitar, oftast ógegnsæjar, þéttvörtóttar báðum megin og frumugerð er mjög óskýr (Bergþór Jóhannsson 1992b).

Útbreiðsla - Hæruskrúfur (Syntrichia ruralis)
Útbreiðsla: Hæruskrúfur (Syntrichia ruralis)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |