Þráðmækir (Distichium capillaceum)

Mynd af Þráðmækir (Distichium capillaceum)
Mynd: Hörður Kristinsson
Þráðmækir (Distichium capillaceum)

Útbreiðsla

Finnst víða um land (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Búsvæði

Vex oftast í rökum, skuggsælum klettum, einkum í skorum, gjótum, skútum og giljum. Getur einnig vaxið í lækjarbökkum og börðum, á melum, í hraunum, urðum og víðar (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Lýsing

Plöntur oft dálítið glansandi, grænar eða gulgrænar. Blöð greinilega í tveim röðum á stöngli og sproti oft áberandi flatur (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Gróliður

Plöntur oft dálítið glansandi, grænar eða gulgrænar ofan til en brúnleitar neðan til, vaxa oft í þéttum toppum, 0,5-8 sm hárum. Rætlingar rauðbrúnir, oft áberandi á neðsta hluta stönguls og oft eru rætlingabrúskar langt upp eftir stöngli. Blöð greinilega í tveim röðum á stöngli og sproti oft áberandi flatur. Blöð oftast 1,5-4 mm. Blaðgrunnur slíðurlaga, liggur utan um stöngul, ljós, stundum hvítleitur. Framhluti blaðs allaga, hrjúfur, útstæður eða vísar á ská upp með stöngli, einkum á smávöxnum eintökum. Rif fyllir að mestu út í framhlutann, nær fram úr blöðku, hrjúft á baki (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Kynliður

Plöntur tvíkynja, oftast með gróhirslum. Stilkur uppréttur, 0,5-2 sm, rauður eða rauðbrúnn, stundum gulleitur. Gróhirsla bein, upprétt, regluleg eða svo til regluleg, langegglaga eða sívöl, brún eða gulbrún. Ungar, fullþroskaðar gróhirslur geta verið grænar. Gamlar gróhirslur oft gular. Lok hátt og keilulaga. Kranstennur 16, festar með jöfnu millibili innan á gróhirsluvegginn nokkuð neðan við gróhirsluopið, mjóar og næstum jafn breiðar fremst og neðst, klofnar eða götóttar eða næstum til grunna í tvo jafnstóra skanka. Tennur geta verið heilar að hluta og misjafnlega klofnar í sama opkransi. Tennur eru brotgjarnar, gulbrúnar, rauðbrúnar eða gular (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Frumur

Frumur í blaðgrunni striklaga eða langar og ferhyrndar. Við blaðrönd í slíðrinu eru frumur litlausar, með þunnum veggjum. Frumur á mótum slíðurs og framhluta eru óreglulegar, oft tígullaga sexhyrndar. Frumur í framhluta blaðs smáar, stuttar og ferhyrndar eða næstum ferningslaga, með útstæðum þverveggjum og blaðrönd því hnúðótt (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Útbreiðsla - Þráðmækir (Distichium capillaceum)
Útbreiðsla: Þráðmækir (Distichium capillaceum)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |