Tjarnakrækja (Scorpidium scorpioides)

Vistgerðir

Vex oft á kafi í tjörnum og vötnum. Vex einnig í flóum og mýrum og við tjarnir (Bergþór Jóhannsson 1998).

Lýsing

Stórgerðar plöntur, vaxa oft á kafi í tjörnum og vötnum. Sprotaendar oft bognir, stöngulblöð mjög kúpt, oftast bogin (Bergþór Jóhannsson 1998).

Gróliður

Oftast stórar eða mjög stórar, grófar og tútnar plöntur, geta orðið yfir 25 sm, óreglulega greinóttar og oft lítið greinóttar. Plöntur grænar, brúngrænar, gulbrúnar, brúnar eða svartar, stundum að einhverju leyti rauðbrúnar. Þurrar plöntur glansandi. Sprotaendar oft bognir. Stöngulblöð oftast 2,5-4,5 mm, mjög kúpt, oftast bogin, breytileg að lögun, stundum breiðlensulaga, stundum næstum kringlótt, mjókka oftast snöggt fram í stuttan, yddan eða snubbóttan enda en geta mjókkað smám saman fram í yddan odd (Bergþór Jóhannsson 1998).

Kynliður

Plöntur einkynja, afar sjaldan með gróhirslum. Stilkur rauðleitur, oftast 2,5-3,0 sm. Gróhirsla aflöng, bogin, brún eða rauðbrún. Lok keilulaga. Opkrans vel þroskaður (Bergþór Jóhannsson 1998).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs með þunnum og holulausum eða þykkum og holóttum veggjum. Frumuendar oftast snubbóttir. Frumur í blaðgrunni styttri og breiðari, með þykkum holóttum veggjum. Hornfrumur oftast fáar, tútnar, stórar, litlausar, ná lítið inn eftir blaðgrunni, vel afmarkaðar frá frumunum í kring. Hornfrumur eru oftast með þunnum veggjum en geta verið með þykkum, holóttum veggjum og eru þá oft gulleitar eða brúnleitar (Bergþór Jóhannsson 1998).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex oft á kafi í tjörnum og vötnum. Vex einnig í flóum og mýrum og við tjarnir (Bergþór Jóhannsson 1998).

Biota

Tegund (Species)
Tjarnakrækja (Scorpidium scorpioides)