Urðaskraut (Rhytidiadelphus loreus)

Útbreiðsla

Finnst nokkuð víða frá Vestfjörðum, suður fyrir á Austfirði, einnig á Tröllaskaga (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Vistgerðir

Vex í urðum, hraunum, kjarri, skóglendi, lyngbrekkum og grasbrekkum, á jarðvegsþöktum klettum, í móum og á þúfum í mýrum (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Lýsing

Stórvaxnar plöntur, óreglulega fjaðurgreindar, blöð oft einhliðasveigð, framhluti blaða yddur og rennulaga (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Gróliður

Stórvaxnar plöntur, óreglulega fjaðurgreindar, grænar eða gulgrænar. Stöngull rauðbrúnn eða brúnn. Blöð upprétt, útstæð eða baksveigð, oft einhliðasveigð, oftast 3-4 mm. Neðri hluti blaðs breiðegglaga, langbylgjóttur. Blöð mjókka frekar snögglega fram í langan, mjóan, rennulaga, yddan framhluta. Blaðrönd flöt, stundum örlítið útundin neðst, hvasstennt framan til. Rif mjótt, tvöfalt, stutt, getur vantað alveg. Engar tennur eða vörtur á bakhlið blaðs. Greinablöð svipuð stöngulblöðunum en minni (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Kynliður

Plöntur einkynja, frekar sjaldan með gróhirslum. Stilkur 1,2-2,5 sm, rauður eða rauðbrúnn, sléttur. Gróhirsla egglaga, rauð, rauðbrún eða brún, stendur oftast þvert út frá stilk. Lok hátt, keilulaga. Ytri tennur brúnar, rauðleitar neðst, lárétt strikóttar neðan til á ytra borði, vörtóttar fremst. Innri krans gulleitur. Innri tennur með egglaga götum eftir miðju (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs striklaga. Frumur með þykkum, oftast greinilega holóttum veggjum. Í blaðgrunni eru frumur brúnleitar, með mjög þykkum, holóttum veggjum (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex í urðum, hraunum, kjarri, skóglendi, lyngbrekkum og grasbrekkum, á jarðvegsþöktum klettum, í móum og á þúfum í mýrum (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Biota

Tegund (Species)
Urðaskraut (Rhytidiadelphus loreus)