Vætufjöður (Fissidens osmundoides)

Útbreiðsla

Finnst dreift um landið, síst á Suðurlandi og Norðausturlandi (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Vistgerðir

Vex í raka, oft í jarðhita, einnig við dý og læki, í mýrum, rökum klettum og hraungjótum og stundum í moldarflögum og snjódældum og á rústasvæðum (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Lýsing

Blöð breiðlensulaga eða næstum tungulaga, breiðydd eða mjókka snögglega fremst í stuttan odd (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Gróliður

Vex í nokkuð þéttum dökkgrænum eða ljósgrænum, stundum dálítið brúnleitum toppum, 0,5-6 sm háum. Stöngull sporlaga í þverskurði. Rætlingar brúnir. Blöð 1,5-2 mm, breiðlensulaga eða næstum tungulaga, breiðydd eða mjókka snögglega fremst í stuttan odd. Blaðrönd getur verið örlítið ljósari en blaðkan innar í blaðinu en þó er aldrei greinilegur jaðar á blöðunum. Blaðka eitt frumulag að þykkt. Framblaðka styttri en slíðurlaga hlutinn. Bakblaðka endar oftast snögglega að neðan. Rif nokkuð breitt, ljóst, nær ekki fram í blaðenda, oft dálítið bugðótt fremst í blaði (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Kynliður

Plöntur einkynja, sjaldan með gróhirslum. Stilkur 3-7 mm, uppréttur eða dálítið bugðóttur, rauður eða rauðbrúnn. Gróhirsla brún, aflöng, upprétt eða álút. Lok með langri, beinni trjónu. Kranstennur rauðbrúnar, klofnar niður undir miðju (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Frumur

Frumur í blaðrönd heldur smærri en frumur innar í blöðku. Frumustærð breytileg, einkum milli plantna (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex í raka, oft í jarðhita, einnig við dý og læki, í mýrum, rökum klettum og hraungjótum og stundum í moldarflögum og snjódældum og á rústasvæðum (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Biota

Tegund (Species)
Vætufjöður (Fissidens osmundoides)