Vætusnoppa (Meesia uliginosa)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Vistgerðir

Vex einkum í mýrum, við læki, á rökum áreyrum, í rökum flögum og utan í rökum klettum. Vex langoftst í vætu en getur vaxið á frekar þurrum stöðum, t.d. utan í þurrum börðum en er þá lágvaxinn (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Lýsing

Plöntur uppréttar, oftast lítillega greindar, 3-7 sm á hæð. Frjóhirslur á nokkuð háum stilki (1-6 sm) (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Gróliður

Plöntur uppréttar, oftast lítillega greindar, 3-7 sm, brúnleitar neðan til en dökk-, ljós- eða gulgrænar efst, dálítið glansandi. Plöntur geta verið að mestu brúnleitar eða svartleitar. Rætlingar á neðri hluta stönguls, ná oft langt upp eftir stöngli, rauðbrúnir, rauðir eða dálítið rauðfjólubláleitir, áberandi vörtóttir. Blöð geta verið dálítið einhliðasveigð. Blöð oftast 2-4 mm, mjótungulaga eða striklensulaga, flöt, snubbótt, heilrend. Neðri blöðin og blöð á smávöxnum plöntum geta verið lensulaga eða þríhyrnd. Blöð eru oftst snubbótt og bogadregin að framan en geta verið sljóydd. Blöð á efri hluta stönguls oftast greinilega lengri en blöð neðan til á honum. Rif mjög breitt, oftast helmingur eða meira af blaðbreidd í blaðgrunni, nær næstum fram undir blaðenda. Blöð eru oft með rauðum eða rauðfjólubláum blettum, jafnt rif sem blaðka (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Kynliður

Plöntur tvíkynja, nær alltaf með gróhirslum. Oftast með sérstökum karlknöppum og kvenknöppum. Egghirslur og frjóhirslur geta þó verið í sama knappi. Stilkur mjór, 1-6 sm, uppréttur, brúnn. Tveir stilkar geta komið frá sömu kvenhlíf. Gróhirsla langperulaga, óregluleg og bogin, með vel aðgreindum, löngum hálsi. Gróhirslur gulbrúnar, verða oft dökkbrúnar með aldrinum. Lok hálfkúlulaga, með smánabba fremst eða næstum flatt. Ytri kranstennur stuttar, gular eða gulbrúnar, þverstýfðar, fínvörtóttar og stundum fínstrikóttar. Innri tennur langar, gular eða gulbrúnar, götóttar eftir miðju, afar fínvörtóttar eða næstum sléttar. Sameiginleg grunnhimna greinileg (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Frumur

Í þverskurði á rifi má sjá að ysta frumulagið, bæði á efra og neðra borði er gert úr smærri frumum en innri frumulögin. Í blöðum eru frumur nokkuð svipaðar að lögun en mismunandi að lengd eftir staðsetningu í blaðinu, t.d. langar og mjóar í blaðgrunni (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex einkum í mýrum, við læki, á rökum áreyrum, í rökum flögum og utan í rökum klettum. Vex langoftst í vætu en getur vaxið á frekar þurrum stöðum, t.d. utan í þurrum börðum en er þá lágvaxinn (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Biota

Tegund (Species)
Vætusnoppa (Meesia uliginosa)