Keldudepill (Cinclidium stygium)

Útbreiðsla

Finnst all víða um landið en lítið á Suðurlandsundirlendinu (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Búsvæði

Vex í flóum og mýrum, við tjarnir, dý og læki (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Lýsing

Plöntur uppréttar, oftast ógreindar, oft að mestu rauðbrúnar en grænar efst og svartleitar neðst (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Gróliður

Plöntur uppréttar, 2-12 sm, oftast ógreindar. Oft eru plöntur að mestu rauðbrúnar en grænar efst og svartleitar neðst. Þær geta einnig verið allar rauðbrúnar eða að mestu svartar. Stöngull dökkbrúnn eða svartur. Rætlingar brúnir, vörtóttir, áberandi, eru oftast eftir mestöllum stönglinum, næstum upp að stöngulenda. Blöð 2-5 mm, næstum kringlótt eða öfugegglaga, stundum aflöng, með yddum broddi. Blaðgrunnur mjór, ekki niðurhleyptur. Rif sterklegt, nær oftast fram undir blaðenda og rennur þar saman við jaðarinn en getur þó endað rétt neðan við blaðoddinn, einkum á neðri blöðunum (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Kynliður

Plöntur einkynja, alloft með gróhirslum. Stilkur 2,5-5 sm, oftast rauðgulur en getur verið rauður, rauðbrúnn eða gulur, oft dálítið bugðóttur. Efst er stilkurinn kengboginn þannig að gróhirsluop snýr niður. Gróhirsla egglaga eða aflöng, gulgræn eða gulbrún. Gamlar gróhirslur rauðgular. Lok hálfkúlulaga. Opkrans tvöfaldur, ytri tennur 16, snubbóttar, gular, sléttar eða fínvörtóttar, standa í bilinu milli innri tanna. Innri krans oftast rauðgulur eða gulbrúnn. Innri krans er alltaf dekkri en sá ytri. Innri tennur 16, mjóar. Ytri tennur eru uppréttar í raka en innsveigðar fremst í þurrki og myndast þá allstór op á hliðum opkransins (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs óreglulega, aflangt sexhyrndar, með nokkuð þykkum, holóttum veggjum. Frumur eru í greinilegum skáröðum upp og út frá rifi að blaðjaðri. Í blaðrönd er áberandi rauðbrúnn jaðar úr tveim til fjórum röðum af löngum, mjóum frumum með mjög þykkum veggjum. Jaðarinn er einnar frumu þykkur og nær eftir allri blaðröndinni. Frumur í blaðbroddi langar (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Útbreiðsla - Keldudepill (Cinclidium stygium)
Útbreiðsla: Keldudepill (Cinclidium stygium)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |