Rákarindill (Dicranella crispa)

Útbreiðsla

Finnst víða um land (Bergþór Jóhannsson 1991).

Búsvæði

Vex á rökum eða frekar þurrum jarðvegi, einkum í skurðbökkum en einnig í flögum, lækjarbökkum og víðar á berum eða hálfberum jarðvegi (Bergþór Jóhannsson 1991).

Lýsing

Plöntur gulgrænar eða grænar, stöngull gulur eða ljósbrúnn, minni en 1 sm á hæð (Bergþór Jóhannsson 1991).

Gróliður

Plöntur gulgrænar eða grænar. Stöngull gulur eða ljósbrúnn, oftast 3-5 mm en stundum 5-10 mm, ógreindur eða með einni eða tveim uppréttum greinum. Rætlingar brúnir en þeir fíngerðari þó hvítleitir. Blöð með aðlægum, slíðurlaga grunni og mjókka snögglega fram í langan, mjóan, allaga og rennulaga framhluta sem stendur þvert út frá stöngli. Neðstu blöðin eru þó lensulaga, næstum upprétt og eru aðeins um 1 mm. Efri blöðin eru oftast 1-2 mm og efstu blöðin og kvenhlífarblöðin 2-3 mm. Rif nær fram í eða fram undir blaðenda (Bergþór Jóhannsson 1991).

Kynliður

Plöntur ýmist einkynja eða tvíkynja, nær alltaf með gróhirslum. Stilkur 0,5-1,5 sm, rauður, rauðbrúnn eða brúnn. Gamlir stilkar geta verið svartir. Gróhirslan snýst rangsælis þegar stilkurinn blotnar en réttsælis þegar hann er þurr. Gróhirsla öfugegglaga eða aflöng, upprétt, regluleg, brún, rákótt. Þurrar gróhirslur djúpskoróttar og gamlar eru að auki oft trektlaga. Lok með langri boginni trjónu. Stöku sinnum er trjónan þó bein. Kranstennur klofnar niður undir miðju, rauðbrúnar eða rauðgular, oft gulleitar fremst, punktstrikóttar (Bergþór Jóhannsson 1991).

Frumur

Frumur í blaðgrunni langar og ferhyrndar en striklaga í framhlutanum (Bergþór Jóhannsson 1991).

Útbreiðsla - Rákarindill (Dicranella crispa)
Útbreiðsla: Rákarindill (Dicranella crispa)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |