Giljavendill (Ditrichum gracile)

Útbreiðsla

Finnst lítið inni á hálendinu og á norðanverðum Vestfjörðum en finnst annars í öllum landshlutum (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Búsvæði

Vex einkum í rökum klettum, í gljúfrum og giljum, við fossa, ár og læki en einnig í brekkum undir sírökum klettum, í hraunbollum, í grasbrekkum, á rökum sandi og getur vaxið á þúfnakollum, í mýrarjöðrum og á sendnum holtum (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Lýsing

Plöntur glansandi, gular til grænar, oftast 4-12 sm á hæð (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Gróliður

Plöntur glansandi, gular til grænar ofan til en brúnleitar eða jafnvel svartleitar neðan til, oftast 4-12 sm en stundum aðeins um 2 sm. Stöngull oft eitthvað bugðóttur og greinóttur. Brúskar ekki sérlega þéttir. Rætlingar rauðbrúnir, sléttir, oftast aðeins neðan til á stöngli en stundum eru rætlingabrúskar eða jafnvel samfelld rætlingaló langt upp eftir stöngli. Greinar og sprotar losna oft frá móðurplöntunni og verða að nýjum plöntum. Þessar greinar eru oftast með blöðum af venjulegri gerð en stundum með smáum blöðum (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Kynliður

Plöntur einkynja en hafa ekki fundist með gróhirslum hér á landi (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Frumur

Frumur í blöðum með þykkjum veggjum (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Útbreiðsla - Giljavendill (Ditrichum gracile)
Útbreiðsla: Giljavendill (Ditrichum gracile)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |