Dældahnúskur (Kiaeria starkei)

Mynd af Dældahnúskur (Kiaeria starkei)
Mynd: Hörður Kristinsson
Dældahnúskur (Kiaeria starkei)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum, einna mest á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra (Bergþór Jóhannsson 1991).

Búsvæði

Vex einkum í snjódældum, einnig í hraungjótum, urðum, lækjargiljum, lyngbrekkum og víðar (Bergþór Jóhannsson 1991).

Lýsing

Vex oftast í 2-6 sm háum brúskum eða breiðum. Blöð oftast sveigð til einnar hliðar en stundum upprétt (Bergþór Jóhannsson 1991).

Gróliður

Vex oftast í 2-6 sm háum brúskum eða allstórum breiðum. Plöntur grænar, stundum gulgrænar, brúnleitar neðan til. Blöð oftast sveigð til einnar hliðar en stundum upprétt eða nokkuð útstæð, 2,5-5 mm, mjókka smám saman frá lensulaga grunni fram í mjóan, allaga framhluta. Blöð heilrend neðan til og framan til eru blöðin oft einnig heilrend en stundum er blaðröndin með ójöfnum en varla tennt. Blaðrönd eitt frumulag að þykkt, flöt eða innsveigð framan til í blaði. Rif mjótt, nær fram úr blöðku, aðeins lítillega vörtótt á baki fremst í blaði eða slétt. Í þverskurði er rifið ekki með neinum hópum af mjóum, þykkveggja frumum (Bergþór Jóhannsson 1991).

Kynliður

Plöntur tvíkynja, oft með gróhirslum. Karlknappur á stöngli rétt neðan við kvenknappinn. Stilkur uppréttur, um 1 sm, gulur en verður stundum rauðgulur, dökkrauður eða svartleitur með aldrinum. Gróhirsla álút, bogin, aflöng, með greinilegum hnúð, brún, rákótt og verður skorótt þegar hún er þurr. Lok með boginni trjónu. Munnhringum vel þroskaður, úr stórum frumum, losnar frá gróhirsluopinu þegar lokið fellur af. Hetta gul, brún í endann, klofin á hliðinni og skástæð þegar gróhirslan er fullþroskuð. Kranstennur rauðbrúnar eða rauðgular neðan til en gulleitar framan til, klofnar um það bil niður að miðju eða götóttar. Plötuskil fíngerð, plötur á ytra borði lóðrétt punktstrikóttar. Á innra borði eru tennur með dreifðum vörtum, fremst eru tennur með nokkuð háum vörtum (Bergþór Jóhannsson 1991).

Frumur

Yfirborðsfrumur gróhirslu aflangar, með þunnum veggjum. Frumur í framhluta blaðs ekki vörtóttar, með holulausum veggjum, oftast aflangar. Blaðhorn áberandi, gulleit, verða brún með aldrinum. Horn ná oftast um hálfa leið frá blaðrönd að rifi (Bergþór Jóhannsson 1991).

Útbreiðsla - Dældahnúskur (Kiaeria starkei)
Útbreiðsla: Dældahnúskur (Kiaeria starkei)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |