Jarphaddur (Polytrichum juniperinum)

Mynd af Jarphaddur (Polytrichum juniperinum)
Mynd: Hörður Kristinsson
Jarphaddur (Polytrichum juniperinum)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum (Bergþór Jóhannsson 1990a).

Búsvæði

Vex í þurrlendi, móum, kjarri, skurðbökkum, innan um lyng, á jarðvegsþöktum steinum, í sandkenndum jarðvegi, snjódældum og á melum. Vex jafnt á hálendi sem láglendi (Bergþór Jóhannsson 1990a).

Lýsing

Stöngull uppréttur, 1-10 sm. Gróhirsla hulin hettu sem oft er áberandi hvítleit (Bergþór Jóhannsson 1990a).

Gróliður

Stöngull uppréttur, 1-10 sm, oftast ógreindur en stundum kvíslgreindur. Rætlingar aðeins neðst á stöngli, brúnir eða ljósbrúnir, jafnvel gráleitir. Stundum ná rætlingar nokkuð upp eftir stöngli sem þá er aðeins með hreisturkenndum blöðum á þeim hluta. Blöð þétt á efri hluta stönguls sem oftast er blaðlaus neðst. Blöð 4-8 mm, mjókka snögglega frá slíðrinu fram í framhlutann. Blaðslíður aflangt og ferhyrnt. Framhluti blaðs mjólensulaga, mjókkar smám saman fram í langan, mjóan, brúnan odd. Oddurinn er myndaður af rifinu sem nær fram úr blöðkunni. Oddurinn er með smáum eða stórum, jafndreifðum tönnum, getur verið ljós allra fremst, 0,5-1 mm eða jafnvel lengri (Bergþór Jóhannsson 1990a).

Kynliður

Gróhirslur algengar. Stilkur sterklegur, rauðbrúnn, uppréttur, 1,5-5 sm langur. Kragi greinilegur. Djúp skora milli kraga og gróhirslu. Lengd greinilega meiri en breidd. Gróhirsla ferhyrnd, með skörpum brúnum, upprétt meðan hún er ung en verður að lokum lárétt, brún þegar hún er fullþroska. Lok með stuttri trjónu. Hetta hylur alla gróhirsluna, oft áberandi hvítleit, endi þó brúnleitur. Kranstennur 64, hvítleitar, jafnstórar, snubbóttar (Bergþór Jóhannsson 1990a).

Frumur

Frumur í fremri hluta blaðs aflangar og snúa þvert á blaðrönd, með þykkum veggjum. Frumurnar eru í nokkuð reglulegum röðum (Bergþór Jóhannsson 1990a).

Útbreiðsla - Jarphaddur (Polytrichum juniperinum)
Útbreiðsla: Jarphaddur (Polytrichum juniperinum)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |