Melagambri (Racomitrium ericoides)

Mynd af Melagambri (Racomitrium ericoides)
Mynd: Hörður Kristinsson
Melagambri (Racomitrium ericoides)

Útbreiðsla

Finnst víða um land (Bergþór Jóhannsson 1993).

Búsvæði

Getur vaxið mjög víða. Vex á melum og klettum, í hraunum og urðum, á sandi, í jökulurðum, á áreyrum, í móum og snjódældum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Lýsing

Plöntur oftast grænar eða gulgrænar efst, sjaldan gráleitar. Stöngull 1-12 sm, blöð egglensulaga, 2,5-3 mm (Bergþór Jóhannsson 1993).

Gróliður

Plöntur grænar eða gulgrænar efst, sjaldan gráleitar en brúnar eða svartleitar neðan til, stundum allar svartleitar. Plöntur oftast reglulega fjaðurgreindar, með stuttum hliðargreinum, stöku sinnum óreglulega greinóttar eða ógreindar. Stöngull 1-12 sm. Hároddur blaða á greinarendum framstæður og bugðóttur en einstaka blað getur þó verið með baksveigðum framhluta. Blöð oftast 2,5-3 mm, egglensulaga, smámjókka næstum frá grunni. Blöð greinilega kjöluð framan til, labgbylgjótt. Fremsti hluti blaðs er litlaus, oftast lítillega tenntur hároddur sem myndaður er af blöðku. Hároddur er oft stuttur og getur vantað alveg á sumar plöntur en nær alltaf eru einhverjar plöntur innan um með greinilegum hároddi á efstu blöðunum. Rif nær um það bil fram undir hárodd, einfalt og oftast óklofið að framan. Rifið er í djúpri rennu sem er langs eftir blaðmiðju (Bergþór Jóhannsson 1993).

Kynliður

Plöntur einkynja, nokkuð oft með gróhirslum. Stilkur kemur frá enda hliðargreinar. Stilkur uppréttur, 7-17 mm, rauðbrúnn eða rauður. Gamlir stilkar oft dökkrauðir eða næstum svartir. Yfirborð stilks slétt. Þurr stilkur undinn til hægri ofan til þegar horft er á hann frá hlið. Gróhirsla upprétt, löng og sívöl eða langegglaga, slétt, gulbrún, brún eða rauðbrún. Þurrar gróhirslur eru oft langskoróttar. Lok með langri trjónu og er álíka langt og grórýmið. Hetta topplaga, regluleg, gulbrún, brún efst, trosnuð eða sepótt að neðan. Opkrans gulbrúnn, brúnn eða rauðbrúnn. Kranstennur 16, klofnar næstum niður að grunni í tvo þráðlaga skanka (Bergþór Jóhannsson 1993).

Frumur

Hornfrumur mjög áberandi í blöðum, stórar, tútnar, oft næstum kringlóttar, vörtulausar, með þunnum, sléttum veggjum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Útbreiðsla - Melagambri (Racomitrium ericoides)
Útbreiðsla: Melagambri (Racomitrium ericoides)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |