Engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus)

Mynd af Engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus)
Mynd: Hörður Kristinsson
Engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus)

Útbreiðsla

Finnst víða um land en lítið inni á miðhálendinu og norðan Vatnajökuls (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Búsvæði

Vex í graslendi, móum, hraunum og urðum, í kjarrlendi og skóglendi (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Lýsing

Stórvaxnar plöntur, óreglulega fjaðurgreindar, blöð oft baksveigð og útstæð, framhluti blaða yddur og rennulaga (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Gróliður

Stórvaxnar plöntur, grænar eða gulleitar, óreglulega fjaðurgreindar. Stöngull rauðbrúnn eða rauðgulur. Blaðgrunnur egglaga, aðlægur. Frá honum mjókka blöð nokkuð snögglega fram í langan, rennulaga, langyddan, ústæðan eða baksveigðan framhluta. Blaðrönd flöt, tennt framan til. Rif þunnt, tvöfalt, stutt. Stöngulblöð oftast 2,8-3,5 mm. Greinablöð smærri en stöngulblöðin, stundum bein en oft útstæð og baksveigð (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Kynliður

Plöntur einkynja, mjög sjaldan með gróhirslum. Stilkur rauðbrúnn, 1,5-2 sm, gróhirsla brún, egglaga, stendur hornrétt út frá stilk, lok hátt, keilulaga. Ytri tennur gular eða brúnleitar, lárétt strikóttar neðan til á ytra borði, vörtóttar framan til. Innri krans gulleitur (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs með fremur þunnum veggjum. Frumur í blaðgrunni gular eða brúnleitar, með mjög holóttum, þykkum vegjum. Í blaðhornum er hópum af stórum, breiðum, dálítið tútnum frumum sem mynda nokkuð vel afmarkaðan hóp (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Útbreiðsla - Engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus)
Útbreiðsla: Engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |