Fjörukragi (Schistidium maritimum)

Mynd af Fjörukragi (Schistidium maritimum)
Mynd: Hörður Kristinsson
Fjörukragi (Schistidium maritimum)

Útbreiðsla

Finnst við ströndina í öllum landshlutum, þó langmest á Vestfjörðum og Vesturlandi (Bergþór Jóhannsson 1993).

Búsvæði

Vex í fjörugrjóti, sjávarhömrum og á klettum og dröngum við sjó (Bergþór Jóhannsson 1993).

Lýsing

Vex í þéttum bólstum í fjörugrjóti, á klettum og dröngum við sjó. Plöntur 1-3 sm, blöð mjólensulaga eða lensulaga (Bergþór Jóhannsson 1993).

Gróliður

Vex í þéttum bólstrum. Plöntur 1-3 sm, dökk-, gul- eða brúngrænar, brúnar eða brúnsvartar efst, oftast svartleitar eða brúnleitar neðan til. Rætlingar brúnir eða gulbrúnir, sléttir. Blöð upprétt, 1,5-3 mm, mjólensulaga eða lensulaga, oftast sljóydd og hárlaus. Efstu blöð og kvenhlífarblöð eru stundum með stuttum hároddi. Hároddur er oft gulleitur neðan til en litlaus framan til, tenntur. Hároddurinn er oftast stuttur en getur orðið um 0,5 mm og stöku sinnum lengri. Rif endar stundum rétt fyrir neðan blaðenda en nær oftast fram í blaðenda eða fram úr blöðku og myndar þykkan, grænan eða brúnan brodd á blöðin. Rif er oft ógreinilega afmarkað fremst í blaði. Rif er oft vörtótt á baki í framhluta blaðs. Blaðbroddur er oftast vörtóttur (Bergþór Jóhannsson 1993).

Kynliður

Plöntur tvíkynja, oftast með gróhirslum. Stilkur uppréttur, oftast 0,4-1 mm. Gróhirsla aflöng, egglaga eða hálfkúlulaga, slétt, brún, ljósbrún eða rauðbrún. Þurrar, tómar gróhirslur með víðu opi og næstum trektlaga. Lok kúpt, með trjónu sem oftast er löng og skástæð en getur verið bein og getur verið stutt. Miðsúlan fellur burt með lokinu. Hetta lítil, klofin á hliðinni og skástæð. Stundum er hettan djúpt klofin á fleiri en einum stað að neðan og getur þá verið upprétt. Rakar tennur sveigðar inn fyrir gróhirsluop en þurrar tennur útsveigðar eða liggja niður með gróhirsluvegg að utan. Kranstennur brúnar, rauðbrúnar eða rauðar, oft gulleitar fremst, vörtóttar, götóttar (Bergþór Jóhannsson 1993).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs óreglulega hringlaga ferningslaga, með þykkum, sléttum eða lítillega hnúðóttum veggjum. Frumur í blaðgrunni ferhyrndar og oftast aflangar, með frekar þykkum, sléttum veggjum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Útbreiðsla - Fjörukragi (Schistidium maritimum)
Útbreiðsla: Fjörukragi (Schistidium maritimum)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |