Vörtukragi (Schistidium papillosum)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Búsvæði

Vex utan í klettum, oft móbergsklettum, í sandfylltum klettaskorum, hraunum, einkum í hraungjótum og -bollum, einnig á steinum, í urðum, giljum og gljúfrum. Vex oft á skuggsælum stöðum eða í nokkrum raka en þó ekki í vatni. Vex oft á steyptum veggjum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Lýsing

Plöntur oft jarðlægar eða uppsveigðar, greinóttar, 2-7 sm, oftast brúnleitar. Blöð oft nokkuð greinilega einhliðasveigð (Bergþór Jóhannsson 1993).

Gróliður

Plöntur oft jarðlægar eða uppsveigðar, greinóttar, 2-7 sm, brúnar neðan til en rauðbrúnar, brúnar eða brúngrænar efst, stundum grænar. Plöntur geta verið svartleitar. Stundum eru plöntur uppréttar og geta vaxið í smáum, kringlóttum bólstrum og eru þá oft aðeins um 1 sm. Plöntur eru oft frekar fíngerðar. Rök blöð nokkuð útstæð en þurr blöð alveg aðlæg. Blöð eru oft nokkuð greinilega einhliðasveigð. Blöð lensulaga, frammjó, ydd. Efstu blöð oftast 1,5-2,5 mm. Efstu blöð alltaf með hároddi. Blaðrönd oft eitthvað tennt fremst. Hároddur litlaus, tenntur, getur orðið um 0,7 mm og um 1 mm á kvenhlífarblöðum. Rif nær fram undir blaðenda. Rif vörtótt á baki, með háum, litlausum, keilulaga vörtum. Vörturnar geta verið niður eftir öllu rifinu en eru oftast aðeins á fremri hluta þess. Þær eru einkum áberandi á yngstu blöðum. Eldri blöð geta verið vörtulaus. Þegar flest blaðanna eru vörtulaus getur þurft að leita að vörtóttum blöðum. Blaðka er eitt frumulag en þó geta komið fyrir blettir sem eru tvö frumulög. Blaðrönd að mestu eitt frumulag en getur verið tvö frumulög fremst á blað (Bergþór Jóhannsson 1993).

Kynliður

Plöntur tvíkynja, oftast með gróhirslum. Grein myndast fyrir neðan kvenknappinn og vex áfram þannig að gamlar gróhirslur verða hliðstæðar á stönglinum. Þetta er sérstaklega áberandi þegar plöntur eru jarðlægar. Stilkur beinn, 0,3-0,6 mm. Gróhirsla egglaga eða aflöng og sívöl, brún eða rauðbrún. Lok kúpt, með trjónu sem er stundum bein en stundum bogin og skástæð. Hetta lítil, topplaga, klofin á nokkrum stöðum að neðan. Kranstennur rauðar, rauðbrúnar eða brúnar, geta verið gulbrúnar, vörtóttar. Vörtur eru óreglulega dreifðar á plötunum, nokkuð háar og áberandi. Tennur geta að einhverju leyti verið ógreinilega punktstrikóttar, á ská, lárétt eða lóðrétt. Einnig geta tennur verið óreglulega strikvörtóttar neðst, en það er afar sjaldgæft (Bergþór Jóhannsson 1993).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs eru ferningslaga eða aflangar, með þykkum, hnúðóttum veggjum. Neðar í blaði eru frumur aflangar og ferhyrndar, með þykkum hnúðóttum veggjum. Frumur í blaðgrunni nokkuð langar við rifið, styttri annars staðar, ferningslaga í blaðrönd. Frumurnar við rifið með nokkurn veginn sléttum veggjum en aðrar frumur nokkuð greinilega með hnúðóttum veggjum. Veggir þykkir (Bergþór Jóhannsson 1993).

Greining

Ef útlit plantna gefur tilefni til að ætla að um þessa tegund sé að ræða getur verið rétt að leita vandlega að dæmigerðu, vörtóttum blöðum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Útbreiðsla - Vörtukragi (Schistidium papillosum)
Útbreiðsla: Vörtukragi (Schistidium papillosum)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |