Bleytuburi (Sphagnum teres)

Mynd af Bleytuburi (Sphagnum teres)
Mynd: Hörður Kristinsson
Bleytuburi (Sphagnum teres)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum, þó minnst á Suðurlandi og Norðausturlandi (Bergþór Jóhannsson 1989).

Búsvæði

Vex í mýrum, við tjarnir, ár og læki, í röku kjarrlendi og víðast þar sem nægur raki er, oft á bersvæði, bæði á láglendi og hálendi (Bergþór Jóhannsson 1989).

Lýsing

Verður sjaldan yfir 10 sm á stærð, grænn, gulgrænn eða brúnleitur. Stöngulblöð tungulaga eða ferhyrnd (Bergþór Jóhannsson 1989).

Gróliður

Í meðallagi stórvaxinn eða smár, verður sjaldan yfir 10 sm en getur orðið 15 sm eða hærri. Grænn, gulgrænn eða jafnvel brúnleitur. Stöngull nokkuð sterklegur með tveim til fjórum lögum af litlausum frumum yst. Stöngull gulleitur, ljósbrúnn eða dökkbrúnn. Greinar í knippi fjórar til sex, tvær til þrjár útstæðar og tvær til þrjár aðlægar. Útstæðar greinar mjókka framan til. Greinablöð liggja oftast upp að greinum, framhluti þeirra stendur sjaldan áberandi út frá greinum en lyftist þó lítið eitt frá næsta blaði fyrir framan. Aðlægar greinar mjórri en þær útstæðu og sumar þeirra jafn langar eða lengri en útstæðu greinarnar. Stundum eru einhverjar greinar af milligerð milli útstæðra og aðlægra greina. Stöngulblöð upprétt eða eitthvað útstæð, oft um 1,5 mm, tungulaga eða ferhyrnd. Blaðendi þverstýfður eða nokkuð bogadreginn, trosnaður (Bergþór Jóhannsson 1989).

Kynliður

Hefur fundist með gróhirslum á Íslandi en þær eru mjög sjaldséðar (Bergþór Jóhannsson 1989).

Frumur

Frumur fremst í stöngulblöðum tígullaga. Blöðin eru oft með ógreinilegum jaðri af löngum og mjóum frumum, jaðarinn hverfur fyrir neðan blaðenda og breikkar ekki neðst í blaðinu. Jaðarinn verður mest fimm frumuraða breiður (Bergþór Jóhannsson 1989).

Útbreiðsla - Bleytuburi (Sphagnum teres)
Útbreiðsla: Bleytuburi (Sphagnum teres)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |