Heiðahéla (Anthelia juratzkana)

Mynd af Heiðahéla (Anthelia juratzkana)
Mynd: Hörður Kristinsson
Heiðahéla (Anthelia juratzkana)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum (Bergþór Jóhannsson 1999).

Búsvæði

Vex í snjódældum, á berum moldarjarðvegi, í flögum, á áreyrum og rökum flesjum, á rökum klettum, oft við læki og í hraunum (Bergþór Jóhannsson 1999).

Lýsing

Mjög smáar plöntur (<1 sm), oft þaktar hvítum þráðum (Bergþór Jóhannsson 1999).

Gróliður

Mjög smáar plöntur, grænar, brúnleitar, gulbrúnar, grágrænar eða blágráar. Þurrar plöntur hvítleitar eða gráar. Plöntur oft þaktar hvítum þráðum. Stundum er svo mikið af þeim að þeir mynda samfellda gráa ló. Plöntur oftast aðeins 2-7 mm, oftast uppréttar eða næstum uppréttar, með þéttstæðum blöðum. Blöð í þrem röðum, svo til eins í öllum röðunum. Blöð aðlæg og skarast. Neðsti hluti blaðs oft dálítið útstæður en framhluti uppréttur eða aðlægur og að nokkru samanbrotin og blöð í áttina við að vera kjöluð. Blöð egglaga, kúpt, klofin niður fyrir miðju. Separ lensulaga, yddir, heilrendir eða örlítið örðóttir. Festing blaða þvert á stöngul. Rætlingar litlausir (Bergþór Jóhannsson 1999).

Kynliður

Plöntur tvíkynja, oft með fósturhylkjum og gróhirslum. Frjóhirslur í blaðöxlum fyrir neðan frjóhirslurnar. Sprotahlutar með kynæxlunarfærum kylfulaga og mun breiðari en sá hluti sprotans sem er aðeins með venjulegum stöngulblöðum. Kvenhlífarblöð klofin niður að miðju eða styttra. Blaðendar örðóttir, karlhlífarblöð stærri en stöngulblöðin. Fósturhlíf egglaga. Hylkismunnur sepóttur. Fullvaxinn stilkur getur orðið um eða lítið eitt yfir 2 mm á lengd. Gróhirsla kúlulaga. Gró ljósbrún (Bergþór Jóhannsson 1999).

Frumur

Gróhirsluveggur tveggja frumna þykkur. Gormar í gormfrumum stundum tveir, stundum þrír. Annars eru frumur í blaðsepum ferhyrndar eða ferningslaga, með þunna eða nokkuð þykka veggi (Bergþór Jóhannsson 1999).

Útbreiðsla - Heiðahéla (Anthelia juratzkana)
Útbreiðsla: Heiðahéla (Anthelia juratzkana)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |