Vorstör (Carex caryophyllea)

Útbreiðsla

Sjaldgæfasta stör landsins, aðeins fundin í hlíðarrótum Herdísarvíkurfjalls á sunnanverðum Reykjanesskaga (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Grasivaxnir bollar eða brekkur.

Lýsing

Fremur lágvaxin stör (10–30 sm) með mjó blöð og eitt karlax en eitt til tvö kvenöx efst á stráinu.

Blað

Myndar gisnar þúfur eða breiður. Stuttir skriðulir stönglar. Slíður ljós- til dökkbrún. Blöð græn og stinn, slétt á efra borði, 1,5–3 mm breið, styttri en stráin. Strá oftast slétt og feld neðst en svolítið ójöfn efst (Lid og Lid 2005).

Blóm

Stutt axskipan með einu, sveru karlaxi og einu til tveimur, aflöngum kvenöxum. Neðri stoðblöð styttra en axið, blaðlaga eða sýlt, með eitt 3–5 mm langt slíður. Axhlífar oftast oddregnar, gulbrúnar, með himnurönd og grænni miðtaug. Hulstur 2–3 mm löng, hærð, gulbrún, með stutta eða lítt áberandi trjónu (Lid og Lid 2005).

Greining

Minnir á dúnhulstrastör þar sem hún hefur einnig hærð hulstur. Stráin eru þó miklu stinnari, öxin aflengri og axhlífar áberandi grænar við miðstrenginn.

Válistaflokkun

EN (tegund í hættu)

ÍslandHeimsválisti
EN NE

Forsendur flokkunar

Vorstör hefur einungis fundist á einum stað á suðvestanverðu landinu en þar uppgötvaðist hún árið 1978. Vaxtarsvæði vorstarar er u.þ.b. 1250 m2 og talið fullvíst að fullþroska einstaklingar séu færri en 250.

Viðmið IUCN: D

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Vorstör er á válista í hættuflokki EN (í hættu).

Válisti 1996: Vorstör er á válista í hættuflokki EN (í hættu).

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Grasivaxnir bollar eða brekkur.

Biota

Tegund (Species)
Vorstör (Carex caryophyllea)