Hnúðsef (Juncus bulbosus)

Útbreiðsla

Hnúðsef er einna algengast á Suður- og Suðvesturlandi og á Fljótsdalshéraði, sjaldgæfara annars staðar (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Hnúðurinn sem gefur því nafn myndast við rótarhálsinn.

Vistgerðir

Leirefja meðfram tjörnum eða á nokkru dýpi í tjörnum og vatnavikum (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Mjög breytilegt, fíngert sef sem er um 5–30 sm hátt, fer þó eftir vatnsdýpi. Blómgast í júlí.

Blað

Mjög breytilegt útlit eftir því hvort plantan vex á kafi í vatni eða í rökum jarðvegi. Á kafi myndar sefið þétta kransa af löngum (10–20 sm), hárfínum, þráðmjóum (0,1–0,5 mm) blöðum. Í leirefju ofan vatnsborðs hefur hnúðsefið styttri og gildari blöð (0,5–1,5 mm), oft töluvert rauðleit. Jurtin myndar oft smáþykkildi eða hnúða í neðstu blaðslíðrum við rótarhálsinn (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Í kafi er blómgun ófullkomin og blómhnoðun stundum blaðgróin. Ofan vatnsborðs, í leir, eru blómhnoðun þéttari og reglulegri með þrem til sjö blómum. Blómhlífarblöðin sex, ýmist rauð eða græn, með glærum eða brúnleitum himnufaldi, ydd. Fræflar þrír, ein fræva með þrískipt fræni (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið nokkuð þvert í toppinn, með smábroddi (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund nema þá mögulega þráðnykru sem þó er grófari, myndar ekki hnúða við rótarhálsinn og hefur allt öðruvísi blómskipan.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Leirefja meðfram tjörnum eða á nokkru dýpi í tjörnum og vatnavikum (Hörður Kristinsson 1998).

Biota

Tegund (Species)
Hnúðsef (Juncus bulbosus)