Mynd: Hörður Kristinsson
Þráðsef (Juncus filiformis)
Útbreiðsla
Það er algengt um norðanvert landið en sjaldséð á Suðurlandi austan Ölfusár (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Búsvæði
Vel grónar hálfdeigjur, mýrajaðrar, rakir lækjarbakkar og gilhvammar (Hörður Kristinsson - floraislands.is og Hörður Kristinsson 1998)
Lýsing
Fremur hávaxið sef (20–40 sm) með grönnum, sívölum stráum og löngu stoðblaði. Blómgast í júní–júlí.
Blað
Stráin eru sívöl, fremur grönn, nálarlaga. Ljósgulbrúnt slíður neðst á stönglinum með örstuttum broddi í stað blöðku. Stoðblað mjög langt, í beinu framhaldi af stráinu (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Fá þéttstæð blómhnoðu í hnapp sem virðist vera á miðju stráinu eða neðar en í rauninni er það stoðblaðið sem blekkir. Blómhlífin sexblaða. Blómhlífarblöðin odddregin, ljósbrún eða grænleit. Fræflar sex með gulgrænum frjóhirslum. Frævan rauð með bleikt, þrískipt fræni (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Aldinin gljáandi, ljósbrún (Hörður Kristinsson 1998).
Greining
Líkist helst hrossanál en þráðsefið þekkist á fíngerðari stráum og ljósari blómskipan, stoðblaðið álíka langt og stráið.
Útbreiðsla: Þráðsef (Juncus filiformis)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp