Mynd: Hörður Kristinsson
Knjáliðagras (Alopecurus geniculatus)
Útbreiðsla
Knjáliðagras er nokkuð útbreitt um landið frá láglendi upp í 400 m hæð en í mun meira magni á Suðurlandi en annars staðar. Hæst hefur það fundist við Orravatn á Hofsafrétti (700 m) og við Hitulaug nyrðri við Ódáðahraun (680 m) (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Búsvæði
Vex helst í deiglendi, engjum, deigum grasi grónum bökkum og rökum túnum (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Lýsing
Lágvaxið gras (12–25 sm), með þétt, dökkgrátt, mjúkt ax.
Blað
Stráið sívalt, lárétt eða skástætt neðst; efsta knéð áberandi bogið og réttir efsta stöngulliðinn upp. Slíðrin útblásin; slíðurhimnan um 2 mm á lengd (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Smáöxin eru einblóma, þétt saman í sívölu, 2–3 sm löngu og 4–5 mm breiðu samaxi (axpunti) á stráendanum. Ein fræva með klofnu fræni. Fræflar þrír, frjóhnappar fjólubláleitir, hanga út úr axinu um blómgunartímann. Smáaxið með týtu sem er knébogin og miklu lengri en axögnin (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).
Greining
Knjáliðagras þekkist best frá vatnsliðagrasi á lengri týtum sem standa langt út úr axinu og á uppblásnum slíðrum. Knjáliðagras er miklu lágvaxnara en háliðagras og með dekkra og styttra samax (Hörður Kristinsson 1998).
Útbreiðsla: Knjáliðagras (Alopecurus geniculatus)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp