Hálmgresi (Calamagrostis neglecta)

Mynd af Hálmgresi (Calamagrostis neglecta)
Mynd: Hörður Kristinsson
Hálmgresi (Calamagrostis neglecta)

Útbreiðsla

Hálmgresi er algeng grastegund um allt land, frá láglendi upp í um 800 m hæð. Hæst fundin í Hveragili í Kverkfjöllum í 1050 m hæð, Vonarskarði í 950 m og Gæsavötum í 930 m (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Búsvæði

Hálmgresið er eitt fárra grastegunda sem að jafnaði vaxa í mýrum og öðru votlendi, t.d. oft á rökum og sendnum áreyrum. Þetta er ein aðalgrastegundin í öllum hálendismýrum en blómstrar ekki alltaf þar.

Lýsing

Meðalhátt gras (30–60 sm) með bleikmóleitum punti. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Stöngulblöðin flöt, 2–4 mm breið; blaðsprotablöð grönn (1–2 mm). Slíðurhimna allt að 2 mm löng við efstu slíður, örstutt eða engin við þau neðstu (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Punturinn fremur fíngerður, greinastuttur og þéttur, bleikmóleitur, grænleitur eða fjólubláleitur, 3–18 sm langur. Smáöxin einblóma. Axagnir 3–4 mm langar, yddar. Blómagnir mislangar, með löngum hvítum hárum við grunninn; sú neðri með baktýtu sem varla nær upp fyrir ögnina (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).

Útbreiðsla - Hálmgresi (Calamagrostis neglecta)
Útbreiðsla: Hálmgresi (Calamagrostis neglecta)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |