Melgresi (Leymus arenarius)
Melgresi (Leymus arenarius)


Útbreiðsla
Það er algengt í kring um landið og er einnig víða á móbergssvæði hálendisins (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Búsvæði
Sandar, einkum foksandar, sandorpin hraun, vikrar og fjörur (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).
Lýsing
Stórvaxið gras (50–90 sm) með löngu, grófu axi. Blómgast í júní.
Blað
Stórvaxið og afar grófgert gras. Stráin afar sterkleg, hárlaus. Blöðin breið, 5–10 mm en verpast upp frá hliðunum í þurrki, blöð blaðsprota oft mjórri (Hörður Kristinsson 1998). Á foksandsvæðum myndar melgresið utan um sig sandhóla (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Blóm
Axið endastætt, 12–20 sm langt og 10–18 mm breitt. Smáöxin oftast þríblóma en stundum með fjórða blómið sem þá er gelt. Axagnir lensulaga, oddmjóar, 15–20 mm langar, oft lítið eitt hærðar. Blómagnir kafloðnar, þær neðstu álíka langar og axagnirnar, þær efri styttri, oddhvassar en týtulausar. Frjóhnappar fjólubláir, um 5 mm langir (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).
Greining
Líkist helst dúnmel en efri hluti stönguls dúnmels er loðinn.
Höfundur
Var efnið hjálplegt? Aftur upp
Takk fyrir!