Vallarfoxgras (Phleum pratense)
Vallarfoxgras (Phleum pratense)

Útbreiðsla
Innflutt grastegund sem lengi hefur verið ræktuð í sáðsléttum, algeng í sáðsléttum og túnjöðrum um allt land (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Búsvæði
Tún og sáðsléttur, slæðingur við bæi (Hörður Kristinsson 1998).
Lýsing
Fremur hávaxin grastegund (30–100 sm) með allbreið blöð og grágrænan axpunt. Blómgast í júní–júlí.
Blað
Blöðin allbreið, 4–8 mm. Slíðurhimna 2–4 mm (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Smáöxin eru einblóma, þétt saman í sívölu 3–8 sm löngu, 8–12 mm breiðu, grágrænu samaxi (axpunti). Axagnir 4–7 mm á lengd, með löngum randhárum á kilinum, mjókka snöggt ofan til og ganga fram í grænan, 1–3 mm langan odd. Blómagnir 2–3 mm á lengd. Frjóhirslur fjólubláar, hanga út úr axinu um blómgunartímann (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).
Greining
Líkist helst háliðagrasi sem hefur þó allt öðruvísi axagnir auk þess sem smáöxin eru lausari á axhelmunni.
Höfundur
Var efnið hjálplegt? Aftur upp
Takk fyrir!