Grasnykra (Potamogeton gramineus)

Mynd af Grasnykra (Potamogeton gramineus)
Mynd: Hörður Kristinsson
Grasnykra (Potamogeton gramineus)

Útbreiðsla

Víða um land, síst þó inni á hálendinu og á Vestfjörðum (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Búsvæði

Grunnir tjarnapollar, lygnir lækir, vatnsflæðar og blautir flóar, stundum innan um stör (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Lýsing

Fremur lágvaxin vatnajurt, 10–20 sm há en getur orðið 30–40 sm ef vatnið er það djúpt. Blómgast í júlí–ágúst.

Blað

Flotblöðin oddbaugótt, á löngum, grönnum stilk. Blaðkan 2–6 sm löng og um 1 sm á breidd. Kafblöðin lensulaga, ydd, óstilkuð, oftast 3–6 sm á lengd og 0,5 sm á breidd. Axlablöðin himnukennd, striklaga, 1–2 sm löng (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin smá, blómhlífarlaus með fjórum fræflum og frævum, allmörg saman í grænleitu eða ljósbrúnu, 1,5–2 sm löngu axi sem stendur upp úr vatninu. Axstilkurinn gildnar nokkuð uppi undir axinu (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist fjallnykru en grasnykran þekkist vel á hinum yddu kafblöðum og og á því að axstilkurinn gildnar efst undir axinu. Líkist einnig blöðkunykru sem er þó miklu grófari og stórvaxnari og vex í dýpri vötnum.

Útbreiðsla - Grasnykra (Potamogeton gramineus)
Útbreiðsla: Grasnykra (Potamogeton gramineus)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |