Geithvönn (Angelica sylvestris)

Útbreiðsla

Geithvönn er allvíða um land en fer þó lítið inn á hálendið. Hæstu fundarstaðir eru í 500 m hjá Laugum við Snæfell og í 420 m í Karlsdrætti við Hvítárvatn (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Tegundin er oft nefnd geitla en snókahvönn er annað gamalt heiti (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Geithvönn ku hafa svipaða verkan sem lækningajurt og ætihvönn nema daufari að öllu leiti (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Vistgerðir

Hún vex einkum í skóglendi, á bökkum og engjum meðfram stórum ám og í blómsælum giljum, bollum og brekkum (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Stórvaxin planta (30–130 sm) með stóra, hvíta, samsetta blómsveipi og fjöðruð blöð. Blómgast í júlí.

Blað

Blöðin tví- til þrífjöðruð, blaðstilkurinn djúpt grópaður að ofan, smáblöðin tennt, blaðslíðrin dumbrauð. Sveipleggir gáraðir, snögghærðir. Stönglar og blöð eru oft bládöggvuð (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru 3–5 mm í þvermál, mörg saman í smásveipum sem aftur skipa sér fjölmargir saman í stórsveipi, 10–15 sm í þvermál. Krónan fimmdeild; krónublöðin oddbaugótt eða lensulaga, hvít eða örlítið bleikleit. Fræflar fimm. Frævan skipt í tvennt, með tveim stílum. Reifablöð striklaga (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið tvíkleyft (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Geithvönn þekkist frá ætihvönn á flarari blómsveip, bládöggvaðri og fíntenntari blöðum. Blaðstilkar eru einnig djúpt grópaðir (Hörður Kristinsson 1998).

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Hún vex einkum í skóglendi, á bökkum og engjum meðfram stórum ám og í blómsælum giljum, bollum og brekkum (Hörður Kristinsson 1998).

Biota

Tegund (Species)
Geithvönn (Angelica sylvestris)