Skógarkerfill (Anthriscus sylvestris)

Útbreiðsla

Skógarkerfill er slæðingur í byggð sem borist hefur hingað frá útlöndum. Hans er fyrst getið í nágrenni Akureyrar á 3. áratug síðustu aldar en er nú löngu orðinn ílendur. Hann er farinn að dreifa sér ört út á eigin spýtur. Hann sækir mjög í að mynda samfelldar breiður sem ekkert fær stöðvað. Skepnur bíta hann lítið og hann vex einnig vel í skugga og þekur stundum skógarbotna (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Slæðingur í görðum, við bæi og í rótuðu landi (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Fremur hávaxin planta (30–120 sm) með hvít blóm í stórsveipum. Blómgast í júní.

Blað

Blöðin tví- til þríhálffjöðruð, að mestu hárlaus nema á jöðrum og neðra borði, langstilkuð. Stilkur og stöngull gáraðir, lítt eða ekki loðnir (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru venjulega 8–16 saman í smásveipum sem aftur skipa sér saman í stórsveipi. Krónan hvít með nokkuð gulgrænleitum blæ, 2–7 mm í þvermál. Krónublöðin öfughjartalaga eða öfugegglaga, áberandi misstór. Bikarblöð vantar. Fræflar oftast fimm, vantar stundum suma eða alla. Ein tvíkleyf fræva með stuttum stílum. Smáreifablöð grænleit eða fjólubláleit, randhærð; stórreifar vantar (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið móleitt, gljáandi, 5–8 mm á lengd, nær sívalt eða kantað en rifjalaust (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Skógarkerfill líkist nokkuð spánarkerfli en vantar anísbragðið af blaðstilkunum og hefur mun minni og fremur slétt aldini. Auk þessa eru blöðin nær hárlaus ólíkt blöðum spánarkerfils sem eru loðin.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Slæðingur í görðum, við bæi og í rótuðu landi (Hörður Kristinsson 1998).

Biota

Tegund (Species)
Skógarkerfill (Anthriscus sylvestris)