Spánarkerfill (Myrrhis odorata)

Útbreiðsla

Spánarkerfill var fluttur inn fyrir alllöngu síðan og hefur breiðst nokkuð út af sjálfsdáðum bæði í trjágörðum, við bæi og meðfram lækjum hér og þar um landið, vantar þó á stórum svæðum (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Slæðingur hér og hvar við bæi og í görðum. Spánarkerfillinn verður nokkuð yfirgangssamur í frjóum og áburðarríkum jarðvegi og getur reynst erfitt að uppræta hann (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Lýsing

Tölvert stórvaxin planta (50–120 sm) með sterkt anísbragð af blaðstilkunum. Blómstrar hvítum blómsveipum í júní.

Blað

Stönglar og blaðstilkar loðnir, blöðin ljósgræn, þrífjöðruð. Sterkt anísbragð er af blaðstilkunum (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru í tvöföldum, allstórum (5–10 sm) sveipum, 2–4 mm í þvermál. Krónublöðin fimm, grænhvít, 2 mm á lengd, skert í oddinn. Fræflar fimm. Frævan með tveim stílum. Smáreifarnar randhærðar, stórreifar vantar (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Tvö, gljáandi, 20–25 mm löng, dökkbrún deilialdin með skörpum rifjum. Berast illa með vindi vegna þyngdar sinnar en fljóta vel í vatni (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Hann er auðþekktur frá öðrum sveipjurtum á hinni sterku aníslykt og anísbragði af blaðstilkum. Líkist helst skógarkerfli. Spánarkerfill þekkist best frá honum á hæringu og ljósari lit blaðanna, bragði blaðstilkanna og á miklu stærri, skarprifjuðum aldinum.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Slæðingur hér og hvar við bæi og í görðum. Spánarkerfillinn verður nokkuð yfirgangssamur í frjóum og áburðarríkum jarðvegi og getur reynst erfitt að uppræta hann (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Spánarkerfill (Myrrhis odorata)