Fellafífill (Hieracium alpinum)

Mynd af Fellafífill (Hieracium alpinum)
Mynd: Hörður Kristinsson
Fellafífill (Hieracium alpinum)

Útbreiðsla

Algengur, einkum til fjalla.

Búsvæði

Graslendi, bollar, grónar gilbrekkur eða mólendi (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Fremur lágvaxinn fífill (15–20 sm) með hlutfallslega stóra, gula körfu. Blómstrar í júní–júlí.

Blað

Stöngulblöð oftast eitt til þrjú en geta verið fleiri. Hvirfingblöð oftast spaðalaga eða lensulaga, mjókka smám saman niður að stilk. Blöðin oftast svo til heilrend en geta verið dálítið bugtennt. Blöð nokkuð mikið hærð. Fjöldi stuttra, gulra kirtilhára á blaðrönd og oft víðar á blöðunum. Blöð alloft eitthvað rauðleit. Stöngull áberandi loðinn (Bergþór Jóhannsson 2004).

Blóm

Aðeins ein karfa á hverjum stöngli. Örsjaldan kemur grein með einni körfu á endanum úr blaðöxl neðarlega á stöngli. Körfur oftast áberandi stórar en þó stundum aðeins í meðallagi stórar á smávöxnum eintökum. Stílar á þurrkuðum plöntum oftast gulir, stundum gulgráir, gulmórauðir eða mórauðir. Reifablöðin kafloðin af mjög löngum broddhárum. Á reifum er einnig fjöldi stuttra, gulra kirtilhára. Reifar án stjörnuhára nema neðst á körfum. Broddhár á reifum bein, oftast ljós í endann en dökk við grunninn en geta verið gráleit fram í enda (Bergþór Jóhannsson 2004).

Aldin

Fræ með svifhárakransi.

Afbrigði

Til eru eintök sem virðast standa á milli fellafífils og annarra tegunda á borð við flikrufífil, Hieracium davidssonii og H. stroemfeltii (Bergþór Jóhannsson 2004).

Greining

Fellafífillinn er lágvaxnari og loðnari en flestir aðrir undafíflar, hann er oftast auðþekktur frá vargsfífil en alls ekki alltaf.

Útbreiðsla - Fellafífill (Hieracium alpinum)
Útbreiðsla: Fellafífill (Hieracium alpinum)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |