Hlíðafífill (Hieracium thaectolepium)

Lýsing

Undafífill sem er oftast án stöngulblaða en stundum með einu blaði. Körfur fremur stórar, blómin gul.

Blað

Plöntur oftast án stöngulblaða en stundum með einu smáu stöngulblaði. Stöku sinnum eru plöntur með einu nokkuð stóru stöngulblaði. Broddhár á blaðröndum oftast áberandi löng og gróf. Blöð oft bláleit og stundum dálítið rauðleit. Blaðgrunnur oftast þver og blöð oft breið neðst og mjókka fram, oft tennt, einkum neðst. Blöð geta einnig verið egglaga eða aflöng. Tennur eru oft stórar en blöð geta verið heilrend. Blöð oft svo til hárlaus á efra borði en geta verið hærð báðum megin. Stutt, gul kirtilhár oftast nokkuð auðfundin á blaðröndum. Neðra borð blaða oft svo til stjarnháralaust en það getur verið verulega stjarnhært og stundum er efra borðið einnig stjarnhært (Bergþór Jóhannsson 2004).

Blóm

Stílar á þurrkuðum plöntum oftast gulir en geta verið gulgráir, gulmórauðir eða mórauðir. Körfur oftast í meðallagi stórar eða stórar. Reifablöð löng og mjó. Reifar með löngum, ljósum eða gulleitum, oft hrokknum broddhárum. Grunnur broddháranna er oftast svartur. Stjarnhár oft nokkuð áberandi á jöðrum reifablaða. Kirtilhár á reifablöðum stutt eða frekar stutt, oftast gul eða hálfglær eða hnúður er gulleitur. Kirtilhárin eru þó stundum nokkuð dökk. Stöku sinnum eru krtilhárin heldur lengri en venjulegt er en þær plöntur eru nokkuð auðþekktar á öðrum einkennum. Reifablöð oft mislit, miðjan dökk en jaðrar áberandi ljósir. Ljós broddhæring neðst á körfunum er oftast áberandi en reifar geta einnig verið frekar snöggar (Bergþór Jóhannsson 2004).

Aldin

Fræ með svifhárakransi.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Biota

Tegund (Species)
Hlíðafífill (Hieracium thaectolepium)