Krossfífill (Senecio vulgaris)

Útbreiðsla

Innflutt jurt sem einhvern tíma hefur slæðst inn í landið með manninum. Hann er mjög algengur á höfuðborgarsvæðinu og víðar á Suðvesturlandi. Annars staðar á landinu er hann fremur sjaldséður og aðeins í byggð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Krossfífill var áður notaður til að ormahreinsa börn (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998). Að auki var seyði af honum notað gegn ýmsum hitasóttum, magaverkjum og hausverk (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Krossfífill hefur verið notaður til að vinna gegn gallveiki og krampaverkjum svo dæmi séu tekin (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Krossfífill inniheldur m.a. inúlín, kvoðunga, kalíum og beiskjuefnin senekín og sníókín. Beiskjuefnin geta valdið fósturmissi hjá þunguðum konum sem neyta jurtarinnar (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Vistgerðir

Garðar, athafnasvæði, götur og bílastæði (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Lýsing

Meðalhá jurt (12–25 sm) með fjaðurflipóttum blöðum og pípukrýnd, gul blóm í körfum. Blómgast í júní–september.

Blað

Stöngullinn með fremur fáum hárum, stakstæðum blöðum og fáum blómkörfum efst. Blöðin fjaðurflipótt, þau neðstu oft sepótt, separ og flipar tenntir (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru í litlum körfum, 3–4 mm á breidd sem breiða lítið úr sér. Öll blómin pípukrýnd, gul. Krónan um eða innan við 1 mm á breidd, fimmdeild, 5–6 mm löng. Frævan með klofið fræni. Innri reifablöð löng (8 mm), þau ytri miklu styttri, öll aðlæg og svört í oddinn (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Fræin með svifkransi (Hörður Kristinsson 1998).

Afbrigði

Stundum koma fram einstaklingar krossfífils með tungukrýnd jaðarblóm.

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Garðar, athafnasvæði, götur og bílastæði (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Krossfífill (Senecio vulgaris)