Merkurfífill (Hieracium acidotoides)

Lýsing

Undafífill án stöngulblaða og með smáar eða í meðallagi stórar körfur gulra blóma.

Blað

Plöntur án stöngulblaða. Aðeins örsjaldan er eitt lítið stöngulblað. Blöð oftast græn, hjartalaga eða egglaga og oft eru sum þeirra aflöng og ydd. Blöð oftast lítillega tennt en geta verið með nokkuð stórum tönnum neðst. Blaðgrunnur oft nokkuð þver en mjókkar stundum smám saman niður að stilk. Oft eru sum blöðin með þverum grunni og eru þá kringluleit eða hjartalaga en önnur með smámjókkandi grunni og eru lengri. Tennur neðst á blöðum geta vísað nokkurn veginn þvert út frá blaðrönd en vísa ekki niður á við. Blöð oftast með broddhárum bæði á efra og neðra borði og með stjarnhárum á neðra borði, stundum einnig á efra borði (Bergþór Jóhannsson 2004).

Blóm

Körfur smáar eða í meðallagi stórar. Reifar dökkar. Reifablöð löng og mjó. Kirtilhár á reifum í meðallagi löng, dökk, eru ekki yfirgnæfandi í hæringu reifa. Broddhár á reifum ljós í endann, oft hrokkin. Þau eru oft fjölmörg neðst á körfunum og eru þá afar áberandi. Stjarnhár á jöðrum reifablaða, stundum einnig á baki. Körfustilkar með dökkum kirtilhárum, stjarnhárum og oftast nokkrum broddhárum. Stílar á þurrkuðum plöntum gulmórauðir, grágulir, gulgráir, mórauðir eða grásvartir (Bergþór Jóhannsson 2004).

Aldin

Fræ með svifhárakransi.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Biota

Tegund (Species)
Merkurfífill (Hieracium acidotoides)