Skarifífill (Leontodon autumnalis)

Útbreiðsla

Algengur um allt land. Hann vex einkum á láglendi, fer sjaldan yfir 600 m hæð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Hann vex einkum í fremur mögru graslendi, túnum, vallendi og grasi grónum hlíðalautum og jafnvel stundum í flögum (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Lýsing

Meðalhár fífill (15–30 sm) með nokkrar gular körfur og dökka hæringu á reifablöðunum. Blómgast í júlí–ágúst.

Blað

Stönglar greindir, grannir, 1,5–2 mm, gáraðir. Laufblöðin í stofnhvirfingu, fjaðurflipótt, 5–15 sm á lengd, fliparnir oftast grannir (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin standa í þéttum körfum á greinendum. Körfurnar 2,5–3 sm í þvermál. Öll blómin gul og tungukrýnd, tungan 2–2,5 mm á breidd. Fræflar fimm, samvaxnir í hólk utan um stílinn. Klofið fræni. Reifablöðin grænsvört, loðin, öll upprétt (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist ýmsum fíflum en þekkist best á hinum grönnu, greindu stönglum sem eru algerlega blaðlausir að undanskildum örsmáum háblöðum efst undir körfunni. Þekkist einnig á körfubotninum sem mjókkar aflíðandi niður á stöngulinn, hann er flatari á flestum öðrum fíflum.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Hann vex einkum í fremur mögru graslendi, túnum, vallendi og grasi grónum hlíðalautum og jafnvel stundum í flögum (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Skarifífill (Leontodon autumnalis)