Skeggsandi (Arenaria norvegica)

Útbreiðsla

Hann er algengur um allt land nema á norðanverðum Vestfjörðum. Skeggsandinn vex mest á láglendi og upp í 750 m hæð en finnst einstöku sinnum miklu hærra. Hæstu skráðir fundarstaðir eru í 1200 m hæð á háegg suðvesturaxlar Tungnafellsjökuls og í norðurhlíðum sama jökuls í 1050 m (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Kjörlendi skeggsanda er sendinn eða myldinn jarðvegur, einkum á lítt grónum, röskuðum svæðum eða á melum (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Mjög lágvaxin jurt (3–10 sm) með hvítum fimmdeildum blómum. Blómgast í júní.

Blað

Marggreinótt jurt með snögghærðum, jarðlægum stönglum. Blöðin gagnstæð, oddbaugótt eða breiðlensulaga, gljáandi (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru 6–9 mm í þvermál. Krónublöðin hvít, ávöl í endann, lengri en bikarblöðin sem eru oddmjó, þrí- til fimmtauga með mjóum himnufaldi. Fræflar tíu, ein fræva með þrem til fimm stílum (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið er egglaga eða nær hnöttótt tannhýði, oft sextennt (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Hann líkist helst kræklum, þá einna helst hnúskakrækli, og nórum. Skeggsandinn þekkist m.a. á sextenntu hýði (þrítennt á nórum og oftast fjór- til fimmtennt á kræklum) og á breiðari, oddbaugóttum og gljáandi laufblöðum (Hörður Kristinsson 1998).

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Kjörlendi skeggsanda er sendinn eða myldinn jarðvegur, einkum á lítt grónum, röskuðum svæðum eða á melum (Hörður Kristinsson 1998).

Biota

Tegund (Species)
Skeggsandi (Arenaria norvegica)