Sóldögg (Drosera rotundifolia)

Útbreiðsla

Fremur sjaldgæf, bundin ákveðnum landshlutum, einkum fundin á vestanverðu landinu og um miðbik norðurlands (Hörður Kristinsson 1998).

Almennt

Eins voru slímdropar plöntunnar settir í brennivín og seldir undir nafninu aquae vitae roris solis. Þeir voru taldir hreint undur og ekki þótti þörf á að leita til læknis ef þeirra væri neytt. Þeir voru t.a.m. notaðir til að eyða vörtum, líkþornum og freknum (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Jurtin er talin ágæt lækningajurt. Hún losar slím úr öndunarfærum, linar krampa og er talin hitastillandi. Hún hefur verið notuð við kíghósta með góðum árangri en eins er hún góð við asma og þurrum hósta. Hún inniheldur bakteríudrepandi efni sem talið er virka gegn ýmsum kvefbakteríum. Útvortis er ferskur safi sóldaggar notaður á vörtur og líkþorn (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Sem dæmi um virk efni í sóldögg má nefna naftakínon, dróseron, flavona, barksýrur og fleiri lífrænar sýrur (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Vistgerðir

Mosavaxnar mýraþúfur og votlendisjaðrar meðfram brekkum. Vex í súrum jarðvegi (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Mjög smávaxin (2–5 sm) planta með kringlóttum blöðum með löngum, rauðum kirtilhárum sem pöddur festast í. Blómgast í júlí.

Blað

Blöðin mörg saman í stofnhvirfingu, móbleik eða rauð, kringlótt, stilklöng, 3–4 mm í þvermál, alsett fagurrauðum, löngum (2–3 mm) kirtilhárum (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin standa nokkur saman eða eru einstök á stöngulendanum, oftast lokuð nema í sólskini. Krónublöðin hvítleit, 3–4 mm á lengd. Bikarinn klofinn nær til miðs, dökkur á lit, fliparnir snubbóttir og oft rauðleitir í endann. Blómstönglarnir blaðlausir og rauðmengaðir (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Auðþekkt frá öðrum íslenskum tegundum.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Mosavaxnar mýraþúfur og votlendisjaðrar meðfram brekkum. Vex í súrum jarðvegi (Hörður Kristinsson 1998).

Biota

Tegund (Species)
Sóldögg (Drosera rotundifolia)