Mynd: Hörður Kristinsson
Fuglaertur (Lathyrus pratensis)
Útbreiðsla
Fremur sjaldgæf (Hörður Kristinsson 1998).
Búsvæði
Ræktarlegt mólendi, graslendi og skóglendi eða kjarr (Hörður Kristinsson 1998).
Lýsing
Fremur hávaxin jurt (30–50 sm) með vafþráðum og gulum, einsamhverfum blómum. Blómgast í júlí–ágúst.
Blað
Stöngullinn hvassstrendur. Blöðin stakstæð, fjöðruð, aðeins með einu fullmynduðu blaðpari en vafþráðum í endann sem oft vefjast utan um nærliggjandi plöntur. Smáblöðin lensulaga, hvassydd. Tvö skakkörlaga og hvassydd axlablöð við blaðfótinn (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Blómin eru um 1,5 sm á lengd, einsamhverf, stuttstilkuð, sex til tíu saman í einhliða klasa. Krónublöðin gul. Bikarinn um 1 sm á lengd, klofinn niður til miðs í fimm mjóa og odddregna flipa, taugarnar hærðar. Fræflar tíu, ein fræva (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Aldinið er belgur, myndaður af einu fræblaði (Lid og Lid 2005).
Greining
Auðþekkt frá öðrum íslenskum tegundum á gulum ertublómum og aðeins einu pari smáblaða.
Útbreiðsla: Fuglaertur (Lathyrus pratensis)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp