Völudepla (Veronica chamaedrys)

Útbreiðsla

Ræktuð í görðum en hefur á einum stað ílenst úti í hinni villtu náttúru á Íslandi skv. Flóru Íslands, 3. útgáfu. Það er á Hvannökrum og Sólbakka í Önundarfirði. Þar hafði hún vaxið í 50 ár þegar Flóra var gefin út um miðja öldina (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Sums staðar ræktuð í görðum en hefur aðeins á einum stað ílenst úti í hinni villtu náttúru (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Lýsing

Meðalhá jurt (15–45 sm) með hærðum blöðum og stönglum. Blómstrar bláum blómum í júní–júlí.

Blað

Stöngullinn hærður með gagnstæð blöð. Blöðin egglaga, gróftennt, hærð, 1,5–3 sm á lengd, stilklaus eða með örstuttum stilk (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru allmörg saman í fremur gisnum klösum sem sitja í blaðöxlunum, 10–15 mm í þvermál, á 3–8 mm löngum, grönnum leggjum. Krónublöðin misstór, blá með dekkri æðum, bikarblöðin græn, lensulaga eða oddbaugótt, 3–4 mm á lengd, hærð, oddmjó. Fræflar tveir. Ein loðin fræva með einum stíl (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist helst steindeplu en blöðin eru auðþekkt, stærri og tenntari.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Sums staðar ræktuð í görðum en hefur aðeins á einum stað ílenst úti í hinni villtu náttúru (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Völudepla (Veronica chamaedrys)