Sjöstjarna (Trientalis europaea)

Útbreiðsla

Hún er algeng á Austurlandi frá Öræfum til Vopnafjarðar en mjög sjaldséð annars staðar (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Eitt sinn voru blóm og blöð sjöstjörnu marin og þeim strokið um hvarma til að lækna ýmsa kvilla í augum. Eins var seyði af rótinni notað til að koma af stað uppsölu. Annað nafn á tegundinni er fagurblóm (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Vistgerðir

Kjarr, skóglendi, lyngmóar og mólendi (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Lýsing

Lágvaxin jurt (6–12 sm) með blöðin í hvirfingu og afskaplega falleg, hvít eða bleikleit blóm, oftast með sjö krónublöðum. Blómgast í júlí.

Blað

Blöðin í hvirfingu ofarlega á stönglinum, fimm til sjö saman, oddbaugótt eða öfugegglaga, nær stilklaus, þunn og hárlaus, 2–3 sm á lengd, 8–13 mm breið, aðeins örsmá lágblöð neðar á stönglinum (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru um 1–1,8 sm í þvermál, oftast eitt en stundum tvö til þrjú saman á fíngerðum leggjum. Krónublöðin oftast sjö, hvít eða ofurlítið bleikleit, odddregin, með gulum hring neðst. Bikarblöðin lensulaga, oddmjó, 4–5 mm löng. Fræflar oftast sjö, með gulum frjóhirslum. Ein fræva, með einum löngum stíl (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund, auðþekkt á blöðunum sem eru í topphvirfingu og á sjödeildri blómstjörnu.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Kjarr, skóglendi, lyngmóar og mólendi (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Sjöstjarna (Trientalis europaea)