Brjóstagras (Thalictrum alpinum)

Mynd af Brjóstagras (Thalictrum alpinum)
Mynd: Hörður Kristinsson
Brjóstagras (Thalictrum alpinum)

Útbreiðsla

Algeng um allt land, frá láglendi allt upp í 900–1000 m hæð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Brjóstagras var talið gott við brjóstmeinum kvenna og júgurbólgu, af því var dregið nafnið júgurgras. Eins hefur þessi tegund verið kölluð kveisugras og kverkagras sem bendir til að það hafi verið notað gegn öðrum kvillum en brjóstmeinum (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Búsvæði

Móar, hlíðar og grasbalar (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Lágvaxin jurt (6–20 sm) með fjöðruð laufblöð og slútandi, fjólubláa blómklasa. Blómgast í maí–júní.

Blað

Blöðin á grönnum stilk, fjöðruð. Smáblöðin einnig fjöðruð eða fjaðurskipt, stilkuð, dökkgræn og gljáandi ofan en ljósgræn á neðra borði, rendur niðurorpnar (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru smá í gisnum klasa á enda stöngulsins. Blómhlífin einföld, fjólublá. Blómhlífarblöðin oddbaugótt, um 2 mm á lengd. Fræflar átta, langir, hanga út úr blóminu, frjóhnappar í fyrstu gulir, síðar brúnir, 2 mm á lengd. Tvær til sex flöskulaga frævur með hliðbeygðu fræni. Þau eru vindfrævuð (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinin hnetur, útblásnar, langgáróttar, á slútandi legg (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Það er auðþekkt á laufblöðunum.

Útbreiðsla - Brjóstagras (Thalictrum alpinum)
Útbreiðsla: Brjóstagras (Thalictrum alpinum)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |