Hlíðamaríustakkur (Alchemilla filicaulis)

Útbreiðsla

Maríustakkur er algengur um allt land (Hörður Kristinsson 1998).

Vistgerðir

Vex einkum í grasbollum eða blómdældum, oft í giljum meðfram lækjum, skjólgóðum hvömmum, bollum og grónum hlíðum (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Lýsing

Meðalhá jurt (15–40 sm) með smáum gulgrænum blómum, stórum handstrengjóttum blöðum með reglulega tenntum sepum.

Blað

Stofnblöðin stilklöng (4–20 (30) sm). Blaðkan 4–10 sm í þvermál, nýrlaga, handstrengjótt og sepótt. Separnir reglulega tenntir (Lid og Lid 2005).

Blóm

Blómin eru í þéttgreindum blómskipunum í blaðöxlum, græn eða gulgræn, 3–4 mm í þvermál, fjórdeild. Krónublöð vantar. Bikarblöð græn, standa í kross, odddregin með hárbrúsk í endann. Helmingi styttri og mjóir utanbikarflipar eru á milli bikarblaðanna. Fræflar fjórir, ein fræva með einum hliðstæðum stíl (Lid og Lid 2005).

Aldin

Aldinið er hneta (Lid og Lid 2005).

Greining

Maríustakkur þekkist frá öðrum maríustökkum á útstæðum, allþéttum hárum á blaðstilkunum.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Vex einkum í grasbollum eða blómdældum, oft í giljum meðfram lækjum, skjólgóðum hvömmum, bollum og grónum hlíðum (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Hlíðamaríustakkur (Alchemilla filicaulis)