Hnoðamaríustakkur (Alchemilla glomerulans)

Útbreiðsla

Hnoðamaríustakkur vex hærra til fjalla en aðrar tegundir maríustakks, hefur fundist í 1000 m hæð á Þverárdalsbrúnum við Þorvaldsdal og Héðinsdalsbrúnum við Hjaltadal (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Lýsing

Stórvaxin jurt (30–60 sm) með smáum gulgrænum blómum, stórum handstrengjóttum blöðum og reglulega tenntum sepum.

Blað

Aðlæg hár á blaðstilkum og stönglinum alveg upp á greinarnar í blómskipaninni. Blöð stór, gulgræn eða lítillega blágræn, nær kringlótt, lítið gap við blaðstilkinn, efra borð oftast þétt sett aðlægum hárum. Blaðsepar um níu talsins, stuttir og breiðir með margar (um 15–19), grófar, snubbóttar tennur á miðsepanum (Lid og Lid 2005).

Blóm

Blómin í kvíslskúfum, fjórdeild, sjaldan fimmdeild, lítil, græn til gulgræn, án krónublaða. Bikarinn með utanbikarblöð. Fjórir fræflar. Eitt fræblað (Lid og Lid 2005).

Aldin

Aldinið er hneta (Lid og Lid 2005).

Greining

Þekkist frá öðrum maríustökkum á aðlægum hárum á blaðstilkunum og öllu efra borði blöðkunnar; blaðkan stór og oftast ljósgrænni. Hnoðamaríustakkur vex einnig hærra til fjalla en hinar tegundirnar.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Biota

Tegund (Species)
Hnoðamaríustakkur (Alchemilla glomerulans)