Holtasóley (Dryas octopetala)

Útbreiðsla

Algeng um allt land. Holtasóley er mjög duglegur landnemi á berum melum og breiðist gjarnan yfir klappir. Hún er mjög harðgerð jurt sem finnst á allmörgum stöðum upp í 1000 m hæð, hæst skráð á Kirkjufjalli við Hörgárdal í 1200 m (floraislands.is). Í Evrópu má hana finna í N-Bretlandi, Írlandi, Skandinavíu og fjallendi í Frakklandi og Þýskalandi. Vex til fjalla allt upp í 2500 m hæð og í kuldabeltinu en niður að sjávarmáli á norðvesturhluta vaxtarsvæðisins (Myndskreytt flóra Íslands og Norður-Evrópu 1992).

Almennt

Þessi jurt gengur undir mismunandi nöfnum eftir þroskastigi. Nafnið holtasóley á einkum við blómgunartímann en hárbrúða eða hármey er hún kölluð þegar aldinið hefur þroskast. Blöðin, sem finna má á öllum árstímum, nefnast rjúpnalauf eða rjúpnalyng og eru mikilvæg fæða rjúpunnar. Áður fyrr var því trúað að rótin drægi til sín peninga, væri hún notuð á réttan hátt og var hún því kölluð þjófarót (Íslensk flóra með litmyndum 1994).

Nytjar

Laufblöð holtasóleyjar voru áður þurrkuð og mulin til að drýgja reyktóbak. Hún er talin góð til að stilla hægðir og óhóflega slímmyndun í meltingarvegi. Eins ku hún góð við sárum í maga og öðrum hlutum meltingarvegar og þá ekki síst ef um blæðingar er að ræða. Hún er einnig talin stilla veilt hjarta. Það er einnig gott að nota holtasóley í skol við bólgum og sárum í tannholdi, munni og hálsi. Te hennar má einnig nota í skol gegn útferð og særindum í leggöngum (Íslenskar lækningajurtir 1998). Einnig má gera te af blöðum holtasóleyjar, ásamt blóðbergi og vallhumli og fá þannig drykk sem er afar góður en einnig hollur heilsunni (Flóra Íslands með litmyndum 1994).

Líffræði

2n = 18 (Norsk Flora 2005). Áhrif holtasóleyjarveiga eru barkandi, styrkjandi og lítið eitt örvandi fyrir meltinguna. Virk efni plöntunnar eru barksýrur, kísilsýra og ýmis steinefni (Íslenskar lækningajurtir 1998).

Vistgerðir

Melkollar og þurrir móar á Íslandi (Íslenska plöntuhandbókin 1998). Klettar og syllur, sjávarhamrar og sandhólar, í hlutlausum eða kalkbornum klettum í Evrópu (Myndskreytt flóra Íslands og Norður-Evrópu 1992).

Lýsing

Lágvaxin planta (5–10 sm) með sígrænum blöðum, hvítloðnum á neðra borði en gljáandi og gishærðum á því efra. Blómstrar stórum, hvítum blómum í maí–júní.

Blað

Fjölær hálfrunni (Norsk Flora 2005). Myndar flatar þúfur. Blöðin eru á jarðlægum, trékenndum sprotum, um 1,2–2,2 sm á lengd, skinnkennd, dökkgræn, egglaga, tennt, stilkstutt, sígræn, gljáandi á efra borði en þétt hvítloðin á neðra borði. Rendurnar niðurorpnar (Íslenska plöntuhandbókin 1998). Blöðin eru oftast hárlaus á efra borði, á neðra borði eru oftast dekkri, greinótt hár á æðunum (fjaðurgreind hár) (Norsk Flora 2005).

Blóm

Blómstönglarnir eru 3–10 sm á lengd og mjúkhærðir. Blómin stór, 2,5–3,5 sm í þvermál. Krónublöðin hvít, mismunandi mörg, oft átta og þá átta bikarblöð. Fræflarnir gulir og mynda þétta þyrpingu í miðju blómsins. Frævurnar margar.

Aldin

Margar smáhnetur (Myndskreytt flóra Íslands og Norður-Evrópu 1992). Við aldinþroskun verður stíllinn að löngum, fjaðurhærðum hala upp úr aldininu. Fræin mynda því saman líkt og snúinn, ljósbrúnan hárlokk. Vinddreifing.

Afbrigði

Á Svalbarða má stundum finna gulhvítar holtasóleyjar og einnig má finna ljósrauðar en það er sjaldgæft (Norsk Flora 2005).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Melkollar og þurrir móar á Íslandi (Íslenska plöntuhandbókin 1998). Klettar og syllur, sjávarhamrar og sandhólar, í hlutlausum eða kalkbornum klettum í Evrópu (Myndskreytt flóra Íslands og Norður-Evrópu 1992).

Biota

Tegund (Species)
Holtasóley (Dryas octopetala)