Gullsteinbrjótur (Saxifraga aizoides)

Útbreiðsla

Finnst aðeins á Austurlandi en er þar algengur allt frá Bakkafirði suður í Skaftafell (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Melar, áreyrar, skriður og klettabelti, helst í raka (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Lýsing

Lágvaxin planta (5–15 sm) með mjóum, stakstæðum blöðum og gulum blómum. Blómgast í júlí.

Blað

Stöngullinn uppsveigður með stakstæðum blöðum sem eru heilrend, striklaga eða lensulaga, broddydd með grófum en strjálum randhárum, 8–18 mm á lengd og 1,5–3 mm á breidd (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru fimmdeild, 10–15 mm í þvermál. Krónublöðin fremur mjó, gul með rauðum dröfnum. Bikarblöðin breiðoddbaugótt, upprétt, styttri en krónublöðin. Fræflar tíu, frævan klofin í tvennt að ofan (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Melar, áreyrar, skriður og klettabelti, helst í raka (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Gullsteinbrjótur (Saxifraga aizoides)