Einir (Juniperus communis)

Útbreiðsla

Einirinn er fremur algengur um nær allt landið, þó er lítið af honum í Húnavatnssýslum, Rangárvallasýslu og í Skaftafellssýslu vestanverðri (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Mólendi, hraun, kjarr og brekkubrúnir.

Lýsing

Fremur lágvaxinn runni (30–120 sm) með nállaga blöð, eina villta barrtréð á Íslandi.

Blað

Runni með nállaga blöð, oftast jarðlægur en myndar stundum upprétta runna. Nálarnar 8–12 mm á lengd, 1–2 mm breiðar, oddhvassar, íhvolfar eða grópaðar ofan en með kili að neðan (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin einkynja í sérbýli. Karlblómin mörg saman í örsmáum (2–3 mm) könglum í blaðöxlunum. Köngulblöðin móleit, þrístrend til tígullaga. Kvenblómin myndast einnig í örsmáum könglum, aðeins þrjú efstu blöð þeirra eru frjó (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Hin frjóu blöð kvenkönglanna (þrjú efstu) vaxa saman í stórt berkennt aldin sem er um 8 mm í þvermál, í fyrstu grænt en verður dökkblátt fullþroskað. Neðri köngulblöðin eru dvergvaxin og mynda í sameiningu smábrodd sem er áfastur við berið neðst (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Mólendi, hraun, kjarr og brekkubrúnir.

Biota

Tegund (Species)
Einir (Juniperus communis)